Sumarljós og svo kemur nóttin

Var að ljúka við Sumarljós og svo kemur nóttin, eftir Jón Kalman. Afskaplega falleg bók en sorgleg, ljúfsár eins og lífið, „sem virðist stundum fara í allar áttir en endar svo iðulega í miðri setningu“; ljóðræn, myndrík, litrík. Mæli með henni við alla sem hrífast af lýrík óbundins máls og blæbrigðamiklum stíl.

Hér má svo finna öllu ítarlegri umfjöllun um bókina.

Uppfært kl. 14:12
Eftir að hafa fyrst rétt í þessu lesið téða umfjöllun um bókina verð ég að setja út á hana. Fyrir það fyrsta: Sjálfsfróun skiptir engu máli fyrir bókina, ótrúlegt að manneskjan hafi endilega viljað minnast á það í ritdómi, bara vegna þess að ein persónan er sögð rúnka sér einu sinni í viku. Kannski fannst henni það mikilvægur punktur, því eins og hún segir sjálf: „Það er töluvert um sjálfsfróun í bókmenntum samtímans“. Það má vel vera, en ekki í þessari bók. Aukinheldur finnst mér það enginn gæðastimpill á bók að hún fjalli að stórum um sjálfsfróun. En ég er líka á skjön við tíðarandann.

Annað: Hún klúðrar titli bókarinnar, kallar hana á einum stað Sumarhús. Það verður að teljast ansi lélegt. Það er ekki mark takandi á fólki sem man ekki hvað bókin heitir sem það var rétt í þessu að lesa.

Þriðja (sem er raunar bara leiðindi af minni hálfu): Ritdómurinn nær aðeins yfir helminginn af því sem mér finnst mikilvægt að komi fram í umfjöllun um þessa bók. Hann klórar í yfirborðið, bókin er dýpri en þetta. En ég hef svosum mitt eigið tækifæri, flyt fyrirlestur um bókina á föstudaginn. Kannski birti ég hann hér ef mér finnst hann nógu góður.

2 thoughts on “Sumarljós og svo kemur nóttin”

  1. Ég skora á þig að birta hann hér þótt þér þyki hann ekki góður. Öðrum gæti þótt hann góður. Hann gæti meira að segja verið gagnlegur.

Lokað er á athugasemdir.