Samtal við Thorberg

Rétt í þessu fékk ég símhringingu frá myndlistarmanninum Bergi Thorberg, raunar ekki í sambandi við listirnar, heldur vegna tryggingar sem ég eitt sinn var skráður fyrir en ég hef sagt upp. Það er skemmtileg tilviljun því í nóvember 2004 hélt hann ljóðasamkeppni sem ég tók þátt í. Átti að yrkja um málverk eftir hann sem hann málaði með kaffi og verðlaunin voru verkið sjálft. Ég vann ekki en ljóðið sem ég samdi (Ást á kaffibarnum (stundarbrjálæði)) var það fyrsta sem ég samdi af nokkrum metnaði og varð síðar kveikjan að bókinni Suttungamiði skilað sem ég „gaf út“ handa vinum og vandamönnum í febrúar/mars 2005. Ég minntist á það við Berg og ræddum við örstutt um listirnar í kjölfarið áður við kvöddumst. Held við höfum báðir haft nokkuð gaman að.

Ég get því miður ekki vísað á myndina sem um ræðir vegna þess að síðan hans Bergs liggur niðri einmitt núna. En hér gefur að líta annað verk eftir hann í sama stíl. Hitt var raunar mun flottara ef ég á að segja eins og mér finnst.