Ritsmíðin enn og aftur

Finnst mér fyndið að hafa elt heimildir gegnum tæplega tvöhundruð ára sögu aðeins til rekast á botnlanga við endann og hafa þurft að þræða mig alla leið til baka og halda áfram í aðra átt? Nei, ekkert átakanlega.

Nú er ég kominn að Erasmusi frá Rotterdam (1469-1517). Ef Lúther má ekki leiða útfrá honum er ég illa svikinn. Lúther er hinn endi gangnanna. Þegar hann er kominn get ég farið að vinna að niðurstöðu ritgerðarinnar. Þá skulum við sjá hversu mjög kirkjan breytti áherslum sínum gegnum tíðina. Þá þarf ég að lesa rúmlega þrjátíu (leiðinlegar) blaðsíður eftir sjálfan mig. Niðurstöðurnar auka svo á blaðsíðufjöldann. Svo inngangurinn. Svo viðauki I um Jesú. Svo viðauki II um austur-vestur skismuna. Horfi ég skyndilega upp á rúmar fjörutíu blaðsíður? Ja, svei mér þá, gott ef ekki.

William frá Ocham var annars maðurinn. Tilvitnun dagsins er í hann: „Frustra fit per plura quod potest fiere per pauciora.“ Það þýðist þannig: Tilgangslaust er að varpa fram mörgum staðhæfingum þar sem fáar duga. Það er oft einfaldað þannig: Einfaldasta svarið er alltaf lausnin. Það er ekki að spyrja að nómínalistískum töffaraskap hjá honum Ockham, vini mínum. Onei.

Uppfært klukkan 22:50
Ég sló síðasta punktinn aftan við meginmálið klukkan sjö, prentaði út, lagaði til, lauk verkinu klukkan kortér yfir átta. 28 blaðsíðna meginmál. Endirinn dálítið snubbóttur en við sjáum hvað setur. Morgundagurinn fer í að komast að niðurstöðu (til þess þarf ég að lesa verkið nokkrum sinnum yfir með glósubók við höndina), skeyta þeim aftanvið, semja lokaorð og loks inngang. Ég hef ákveðið að sleppa viðaukunum. Líklegast horfi ég þá upp á að skrifa 6 blaðsíður til viðbótar og ekkert meira en það. Lokaviðmið er því 38 blaðsíður að forsíðu og heimildaskrá meðtöldum. Áreiðanlega eru lesendur mínir nokkurs bættari að vita það.

2 thoughts on “Ritsmíðin enn og aftur”

Lokað er á athugasemdir.