Það er afar skrítið að standa skyndilega uppi með sýn til allra handa eftir ævilanga ferð eftir beinu brautinni, sjá alla möguleikana kringum sig og hvað gæti orðið. Þá veltir maður upp steinum allra þeirra mögulegu leiða sem maður hefði getað farið, fór ekki og veit því ekki hvað hefði orðið. En óhjákvæmilega leiðir maður jafnframt hugann að öllum þeim möguleikum sem spruttu upp gegnum tíðina sem maður taldi að gæti orðið en urðu aldrei. Þá hættir manni til að spyrja sig hvort maður eigi það til að ofmeta möguleika.
Hér er hugmynd: Hagfræðin hefur sem löngu er orðið ljóst skapað nýtt tungumál. Það er spurning hvort tungumál hagfræðinnar heimfært upp á móðurtunguna geti skapað nýja möguleika. Til dæmis er orðið vergur, sem þýðir að allt er tekið með í reikninginn, sbr. hugtakið verg landsframleiðsla. Gæti þetta orðið til þess að ný andstæða skapist við orðið dvergur og geri bókstafinn d á undan nafnorði þarmeð að smækkunarforskeyti? Gunnar B. er til dæmis nokkuð vergur náungi og drýrri en aðrir, en Sigurður Kári er dvergur.
Snilld dagsins en jafnframt skandal hvíslaði lítill Farfugl í eyra mér:
„Maður fær ekki alltaf það sem maður vill. Og þá verður maður að vinna úr því sem að maður þá fær í staðinn. Maður getur ekki alltaf farið með sætustu stelpuna heim af ballinu en stundum kannski eitthvað sem gerir sama gagn.“
-Geir Haarde, utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, í ræðu um varnarmál í Valhöll 18. mars 2006. Sá möguleiki er fyrir hendi að hr. Haarde hafi í tilraun til hótfyndni misst út úr sér nokkuð sem alstaðar annarsstaðar í heiminum þættu alvarleg ummæli fyrir ráðherra.
Ljóð dagsins er 10. hluti Tímans og vatnsins eftir Stein Steinarr, en í því ljóði eru einmitt margskonar möguleikar. Ég las þetta um daginn og það sló mig, sló mig virkilega. Dag einn mun ég þó eflaust leggja allt aðra merkingu í það:
Frá vitund minni
til vara þinna
er veglaust haf.En draumur minn glóði
í dulkvikri báru,
meðan djúpið svaf.Og falin sorg mín
nær fundi þínum
eins og firðblátt haf.
Segjum það gott í bili!
Ég hef mætt mjög illa í skólann að undanförnu. Núna er ég hins vegar farinn að mæta. En þá lætur þú ekki sjá þig. Held að það séu eflaust 2-3 vikur síðan ég sá þig síðast. Hahaha.
Já, það náttúrlega gengur ekki, og stendur til bóta. Ég raunar rétt svo mætti í listasögu í dag. En ég mæti á morgun og reyni að halda mætingunni skikkanlegri þessa síðustu daga 🙂