Þessi pistill er bæði lélegur og gjörsamlega tilgangslaus. Hann er samt fyndinn. Allar vangaveltur um hvernig það hefði nú verið hefði þessi eða hinn lifað lengur eru nefnilega í eðli sínu bæði lélegar og tilgangslausar, og enda þótt það geti verið fyndið að agnúast út í slíkar hugleiðingar er það alveg jafn lélegt og tilgangslaust, vegna þess að slíkar hugleiðingar eru tiltölulega saklausar svo lengi sem þeim er ekki fleygt fram sem staðreyndum eða raunverulegum líkindum.
Þessi pistill er hinsvegar hvorki lélegur né tilgangslaus. Sjálfur færist ég æ nær þeirri skoðun að tungutak fólks skipti ekki höfuðmáli svo lengi sem merkingin kemst til skila. Sumum þykir málið afar kynbundið og vilja afkynvæða það. Þetta er ekki hægt svo vel sé, og í raun fyllilega tilgangslaust. Kyn orða hafa nefnilega enga raunverulega skírskotun í kyn þess fólks sem um ræðir. Gott dæmi er das Mädchen í þýsku (stúlkið). Í raun er tungumálið fyrst kynvætt þegar tilraunir til afkynvæðingar eiga sér stað; þar sem kyn orða höfðu áður enga skírskotun til raunveruleikans veitist þeim hún með afkynvæðingunni. Þetta er hinsvegar kannski ekki neitt sérlega mikilvægt. Það sem er mikilvægt er að við þyrftum að finna nýjar leiðir til að orða sömu hluti og að „þýðing“ eldri setninga yfir á hina nýju málfarsstefnu gæti riðlað merkingu þeirra. Grunnpunkturinn er svo vitaskuld sá: Tungumálið þróast ekki vegna þess þú segir því að gera það. Þannig virkar það bara því miður ekki.
Ég þverneita að afmá karl- og kvenkyns áherslur eða stokka þeim upp. Til hvers?
Hvers vegna ekki þá bara að taka upp bókstafinn „W“ í leiðinni og gefa honum bjagað kokhljóð og búa til flókna, handahófskennda stafsetningarreglu um staðsetningu hans í orðum?
Og því að hætta þar? Tökum upp Kínverskt Hanin letur! Eða hvað með að hætta bara alfarið að tala og skrifa?
Spurning hvernig íslenskan væri ef fólk væri alltaf að breyta henni með því einu að segja það. 😛
Tja, tökum kannski ekki svo djúpt í árinni. Mergurinn málsins er einmitt sá að fólk getur ekki breytt tungumálinu með því að segja það, ekki einu sinni með því að reyna það. Þannig þróast tungumál einfaldlega ekki.
Ef við notum alltaf orðið bræður en aldrei systur hvaða áhrif heldurðu að það hafi á systurnar? Við reynum að færa biblíuna til nútímans í þýðingunni og í nútímanum lesa bæði bræður og systur biblíuna. Þetta er pólitík.
Auðvitað set ég mig ekki á móti því að veita systrunum svigrúm, það væri fáránlegt af mér. Dæmi um það sem ég á við er, svo ég vitni í pistilinn: „… að láta ekki málfræðilegt karlkyn fara með hlutleysishlutverkið“. Ég set mig heldur ekki á móti því að fólk reyni að temja sér þetta, en mér finnst viðleitnin óþörf, vegna þess að málfræðileg kynjaskipting þarf ekki undir nokkrum kringumstæðum að eiga sér raunverulega skírskotun. A.m.k. er ég þeirrar skoðunar að áfn. sá eigi ekki aðeins við karlmenn, þótt orðið sé karlkyns.
Annað sem sést nú í auknum mæli er svo kynjaskipting starfsstétta, t.d. í kennara og kennslukonur. Það er alltsaman gott og gilt og allt í lagi með það, en maður spyr sig hvort nokkur raunveruleg nauðsyn sé á, því enda þótt feminisminn skoði konuna í samfélagi karlsins, er þá ekki markmiðið á endanum að afnema slíka dilkadrætti? Spyr ég sem feministi.
Dýralækningarkona?
Ræstitækniskona?
Forsetakona?
Forseta? o_O
Rithöfunda?
Hérna finnst mér femínistur einfaldlega ganga of langt ef þetta er framtíðin… Vilji þær tala svona í fullri alvöru, þá mega þær gera það heima hjá sér.
Ég skal nú svosem ekki alhæfa eitt né neitt um hvort þetta sé eitthvað almennt meðal feminista. Ég hef hinsvegar tekið eftir þessu í síauknum mæli og ég veit til þess að Drífa Snædal, sem er feministi, vill gera greinarmun á konum og mönnum. Að hennar áliti eru konur ekki menn, sem myndi gera það að verkum að konur gætu ekki verið lögreglumenn, flugstjórar, sjómenn o.s.frv., heldur væru þær lögreglukonur, flugstýrur og (nú veit ég ekki) sjókonur. Ég, verandi eins og ég er, get hvorki tekið undir þann greinarmun né nauðsyn þess að gera þann greinarmun.
Eitt sinn unnu fóstrur á leikskólum. Karlar gátu ekki gegnt starfsheitinu fóstra. Karlar myndu tæplega taka undir að vera kallaðir ráðfrúr en (of fáar) konur fá starfsheitið ráðherra. Það er ekkert einfalt við þetta!
Þetta eru afar góð rök. Ráðherra er auðvitað afar óheppilegt starfsheiti um konur og því mætti alveg breyta.
Og það er raunar alveg rétt að fullt af starfsheitum hefur verið breytt vegna aukins fjölda karlmanna í þeim stöðum, t.a.m. fóstra = leikskólakennari og flugfreyja = flugþjónn.
Vissulega er málið flókið og vert er að ræða það. Það er margt sem tilefni er til að breyta. Hinsvegar verður að gæta þess að ganga ekki of langt í þeim efnum.