Á enn einum vordegi

Skyndilega voraði enn einu sinni í forræðisdeilu árstíðanna. Vissulega léttir það lundina. Fernt vegur þó á móti:

1. Stóra ritgerðin komin niður í 30 blaðsíður og enn get ég (og mun) stytta hana.
2. Fyrirlestur um Þriðja maí eftir Goya sem þarf að semja fyrir flutning á morgun.
3. Síþreyta. Ég hvílist ekki þótt ég sofi og kaffi hjálpar ekkert.
4. Ef við bætum eirðarleysi við atriði 3 er komin uppskriftin að andlegri stólpípu.

Þó fer nú senn að styttast í leiðarlok. Höfuðstærð mæld í dag af frenólóg frá P. Eyefeld, síðasti kennsludagur í næstu viku, sólarhringsfyllerí þann 21. apríl, uppáhaldið mitt hefst svo þann 27. (prófatörnin) og moldun fer fram nákvæmlega mánuði síðar með tilheyrandi erfidrykkju þar á eftir. Á svona dögum vill maður þó síst hugsa um allt það heldur einfaldlega njóta þess að vera til. En því miður fer dagurinn, öðrum dögum líkt, í verkefnavinnu. Veikist þá vort langlundargeð.

Uppfært kl. 17:22
Á ég að trúa því að Word leiðrétti ekki fokkíng tölusetningar neðanmálsgreinanna þegar ég eyði einni?! Á ég að þurfa að gera þetta? ÞARF ÉG ANDSKOTAKORNIÐ AÐ EYÐA HVERRI EINUSTU NEÐANMÁLSGREIN OG STIMPLA ÞÆR ALLAR AFTUR INN SJÁLFUR??? Hvaða djöfulsins fokkíng kjaftæði er það!?

Uppfært kl. 20:52
Ég held, svei mér þá, að ritgerðin sé tilbúin. Síðasti yfirlestur núna og ekki orð um það meir. Svo hefst vinna á fyrirlestrinum.

Uppfært kl. 22:38
Ritgerðin endaði í 27 blaðsíðum. Það er töluvert minna en 39 blaðsíður. Til þess að gera er ég ánægður með hana, en siðskiptin eyðileggja hana í lokin. Það verður að hafa það. Þá hefst vinna á fyrirlestrinum. Meira af áhugaverðu lífi mínu á morgun.