Já, nú kom nýi frakkinn sér vel. Meira veðrið.
Í gærkvöldi fann ég sjálfan mig í nýrri ábyrgðarstöðu. Sinni því auðvitað sem best ég get þótt síst hafi ég beðið um það. En sem betur fer hefur engum sýsifosarsteini verið velt á mig. Nóg er að gera samt.
Í gærkvöldi gerðist fleira, t.a.m. sat ég afar fræðandi fund með Auði og Uglu, þar sem fjallað var um jafnréttisráðstefnu á vegum Sameinuðu þjóðanna. Rakleiðis þar á eftir fórum við á knæpu hvar ég hitti víðfrægan bloggara. Eiginlega er hálfsúrrealískt að hitta fólk sem maður hefur aðeins haft samskipti við á netinu, en það er skemmtilegt.
Á morgun fer ég svo niður í Íslandsbanka (fer ekki núna vegna veðurs) og gerist aftur alvöru Íslendingur. Ég hef verið skuldlaus í heilt ár, en nú er kominn tími á yfirdrátt. Já, svona er þetta. En hvað getur maður sagt? Það var gott á meðan því stóð?
Þú meinar væntanlega Glitni. Íslandsbanki er ekki lengur til.
Stundum er ágætt að vera íhaldssamur til að forðast aulahroll. Það tók mig t.a.m. afar langan tíma að venjast því að tala um KB-banka.