Ávöxtur streitunnar

Svo mikið stress var á mér í vinnunni í dag að ég fékk fyrir hjartað. Tók af því tilefni nokkrar verkjatöflur af ýmsum gerðum og hélt áfram að vinna. Þetta hefur ekki gerst svo teljandi sé síðan ég fékk næstumþvíhjartaáfall á Þjóðarbókhlöðunni fyrir réttum sex árum. Það var raunar talsvert alvarlegra, þó ekki svo að ég þyrfti aðstoð við að fjarlægja mig af gólfinu.

Á leiðinni frá lyfjabúri inn í deild hitti ég Hjördísi og föruneyti. Annarlegt ástand olli snubbóttri kveðju af minni hálfu. Vonandi fyrirgefst það.

Hitt er svo aftur augljóst að ég þarf að læra að slappa af. Ég kann það ekki. Margt hvílir á mér núna, raunar ekki allt á mína ábyrgð en nógu mikið samt. Alltaf þarf ég að vasast í of miklu á sama tíma og gera allt á síðustu stundu. Með þessu áframhaldi og viðlíka stigmögnun og orðið hefur á athafnamennskunni verð ég dauður innan fimmtán ára. Vonandi fæ ég einhverja hvíld í sumar (borin von, raunar).

Minni svo aftur á þetta. Allir mæti!

4 thoughts on “Ávöxtur streitunnar”

  1. Þú varst svo myndarlegur í IKEA-klæðunum að það bætir allt upp 😉 Annars vorum við líka í annarlegu ástandi. Við höfum labbað u.þ.b. tvo hringi í leit að lampadeildinni og vorum orðnar ansi áttavilltar og hræddar um að komast aldrei út aftur.. Við enduðum svo með engan lampa heldur bleika klukku..

  2. Fólk er mjög gjarnt á að villast í IKEA. Sumir myndu jafnvel vilja líkja því við Knossos samtímans, miðinn sem tilgreinir að varan sem þig langar í sé ekki til verandi Mínótaurusinn við enda völundarhússins, og óhjákvæmilega gerir það Jóhannes Rúnar framkvæmdastjóra að íslenskum Mínósi, þótt hvorki sé hann eins þekktur né forframaður í samskiptum við Póseidon.
    Eitt sinn afgreiddi ég annars gamla konu sem fannst ég svo myndarlegur að henni þótti það borgaraleg skylda sín að tilkynna mér það sem oftast meðan hún strauk mér um handlegginn. Á sama tíma reyndi dóttir hennar, á mínum aldri, í hvívetna að draga hana í burtu frá mér. Ég yppti vingjarnlega til hennar öxlunum þegar þær mæðgur fóru, til að gefa til kynna að ég gæti ekkert að gert þótt einkennisbúningurinn ýtti undir slíka hegðun.
    Var það annars þessi klukka? Áreiðanlega kostagripur.

  3. Já, það er þessi hér, hvernig vissiru! Greinilega pró.. Ótrúlegt attraction sem þessi búningur er enda hefir margur ikeastarfsmaðurinn heillað mig uppúr skónum!

Lokað er á athugasemdir.