Þjónustuver Símans

Í gærkvöldi þurfti ég nauðsynlega að komast á netið. Einmitt þá lá það niðri og einmitt þá dugðu engin venjuleg úrræði. Svo ég hringdi í þjónustuver Símans, þrátt fyrir að þau þar firri sig jafnan allri ábyrgð og neiti að aðstoða okkur sem höfum þráðlaust netsamband (þau semsagt þjónusta ekki vinsælustu þjónustuleiðirnar, enda með öllu ótækt að þjónusta alla þá aula sem láta glepjast af linnulausum símhringingum sínum og auglýsingum).

Sem venjulega undir þessum kringumstæðum var ég tengdur inn á skaðræðis manndómsvígsluvígvélina sem spilar linnulausa sixties-tónlist, að þessu sinni gekk vélin það langt að spila fyrir mig tónmorð The Monkeys. Ég reyndi að halda tólinu eins langt frá eyranu og ég gat en þó það nálægt að ég gæti heyrt ef kvalarlostafullum úrþvættunum kæmi það mögulega til hugar að svara símanum. Þannig sat ég í kortér, meðan blóðið frussaðist úr eyrum mér og nístandi sársaukinn leysti upp í mér heilalímingarnar. Loks stöðvaðist hryllingurinn og einum of kunnugleg rödd kom í símann: Þú ert númer þrjátíu í röðinni! Ég skellti á. Greinilega landlægt vandamál, hugsaði ég, með síðustu örðu af lífsorku sem ég átti eftir eða þvísemnæst.

Þá prófaði ég að keyra upp vafrann aftur. Það gekk, netið var komið í lag, af sjálfu sér. Eins gott, til þess eins hefði ég beðið allan tímann í símanum að láta segja mér að ég væri handan aðstoðar, meðan The Monkeys hefðu sargað sundur á mér hausinn. Þó vil ég koma þökkum áleiðis til þjónustuvers Símans, sem aldrei bregst þegar nauðin er hvað mest. Hver veit nema ekkert hefði gerst hefði ég ekki hringt.

Það má bæta þeirri athugasemd hér við, vegna viðbragða við fyrri færslum viðlíka þessari, að allt er þetta í góðu gamni sagt. Ég er ekki pirraður út í þjónustuver Símans vegna þessa. Það væri fáránlegt. Þó verð ég að játa, að tregða þeirra við að aðstoða fólk með þráðlausa tengingu er fyrir neðan allar hellur. Þau geta það nefnilega vel, þau gerðu það alltaf þartil Síminn var seldur.