Ó, fagra Reykjavík!

Ég hef alltaf talið Elliðaárdalinn sannkallaða vin í skrælnaðri eyðimörk Reykjavíkur, og í gærkvöldi ákvað ég að fara þangað fyrsta sinni á ævinni, til að létta á þunga skapinu sem ég var í. Hvað gæti verið betur til þess fallið að létta á skapinu en að ganga um síðasta náttúrlega landslag höfuðborgarinnar á hlýju vorkvöldi, hlusta á niðinn í lækjum og fuglasöng, og anda að sér fersku lofti. Sjálfsagt væri fátt betur til þess fallið, en sjálfsagt hefði mér getað dottið eitthvað betra í hug en þessi skaðræðisdalur.

Elliðaárdalurinn, vissi ég, er ekki einungis umkringdur tveim stærstu umferðaræðum borgarinnar, heldur einnig Árbænum og neðra-Breiðholti. Það hljómar ekki vænlega, en mér hafði verið sagt að Elliðaárdalurinn væri „síðasta og fegursta útivistarsvæði Reykjavíkur“. Ég var ranglega upplýstur. Þannig er sannleikurinn: Ljót brú teygir sig yfir Elliðaána, verður að ljótari steypuklumpi sem gengur meðfram Miklubrautinni og endar við Sæbraut/Vesturlandsveg. Út af klumpinum má beygja til suðurs inn á lítinn malarstíg. Á allar hliðar má sjá sinu og illa farið kjarr. Eftir því sem stígurinn teygir sig lengra spretta loks upp barrtré vestan megin stígsins. Austan megin gnæfir orkustöðin yfir öllu. Á alla kanta heyrist umferðarniður og hvorki hægt að líta til norðurs né vesturs án þess að sjá brunandi bílaumferð. Loftið er síst hreinna en annarsstaðar í Reykjavík, umhverfið síst fegurra en annarsstaðar í Reykjavík, stemningin álíka og á umferðareyju. Eini munurinn eru lækirnir. Þeir eru víst fáir orðnir eftir í Reykjavík. Ég fór ekki lengra en þetta. Og betur hefði ég farið eitthvert annað.

Ég sé það hinsvegar núna að hvorki verður haldið né sleppt hvað mig varðar, því ég vil bæði búa í borg og í sveit, en Reykjavík er alls ekki borg og á suðurlandi eru engar sveitir nema síður sé. Að minnsta kosti engir skógar. Hvað útivistarsvæði varðar höfum við reykvíkingar aðeins Heiðmörkina, þann guðsvolaða stað, Grasagarðinn, heldur lítill og einum of augljóslega manngerður, Hljómskálagarðinn (oj), skógræktarsvæðið í Fossvogsdalnum og mögulega síðasta vígið, sem ég á eftir að kanna nánar, dalverpið milli Árbæjar og Breiðholts, ofan Elliðaárvirkjunar. Sjálf virkjunin markar landamæri náttúru og ónáttúru; fyrir neðan hana hefst draslplássið sem átti að heita síðasti fagri bletturinn í borginni.

Hvers vegna státar Reykjavík ekki af almennilegum Listigarði, líkt og Akureyri, eða Kjarnaskógi, líkt og Akureyri? Nú er ég ekki að segja að ég sé farinn til Akureyrar, en mér verður meir og meir uppsiga við þetta pláss eftir því sem árin líða, hér er ekki nokkur griðastaður, hér er ekkert nema umferðareyjur, ef það er stytta eða kjarr ofaná heitir það útivistarsvæði, sjálf borgin er aðeins bil á milli akbrauta; Reykjavík er ekki borg fyrir fólk heldur borg fyrir bíla þess, borg sem gengur út á að koma sér sem hraðast undan einu þaki undir annað, átta til fjögur-borg. Við sem ekki eigum bíla og eigum því engan kost á að flýja, við megum húka í Laugardalnum, innan um trúða, pylsur, gasblöðrur og blessuð húsdýrin.

3 thoughts on "Ó, fagra Reykjavík!"

 1. Avatar Hallur skrifar:

  Ég er ósammála þér í svo mörgum atriðum að ég nenni ekki einu sinni að telja þau upp, en ætla samt sem áður að benda þér á að fara bara í Mosfellsveit ef þig langar í labbitúr. Getur meira að segja tekið strætó þangað sem gengur reglulega og alveg vestur í bæ á bakaleiðinni. Þar er fullt af hólum og fellum sem er rosalega gaman að labba á og þykjast upplifa íslenska náttúru.
  Hvað Akureyrir varðar þá er hún stórlega ofmetin, þó hún sé ágæt til síns brúks.

 2. Það er líka spurning um kyrrðina. Reykjavík á sína fögru bletti en ég kann aðeins að nefna fáa staði þarsem umferðarniður er ekki áberandi.
  Raunar þarf ég ekki að fara alla leið upp í Mosfellssveit, það er líka svæði í námunda við Grafarholtið. Það samt stingur mig dálítið að þurfa að ferðast langar vegalengdir til að komast á þessa staði.
  Akureyri er vissulega ofmetin. Ég kann miklu betur við mig í Reykjavík. Þar eru þó þeir tveir staðir sem ég kann einna best að meta í eða í námunda við íslenskt þéttbýli, Listigarðurinn og Kjarnaskógur.

 3. Þess má annars geta að pistilinn skrifaði ég í gær, þegar ég var hvað svekktastur, en hann vildi ekki birtast. Þótt ég sjái hve djúpt ég tek í árinni og sé ekki eins pirraður núna eins og í gær ákvað ég að birta hann samt.

Lokað er á athugasemdir.