Af hörmungum

Það er ekki hægt að læra í þessari skaðræðisbyggingu sem ég bý í. Höfðalag rúmsins er hinumegin veggjar við stigaganginn, hvar börnum er sérlega tamt að hlaupa upp og niður án tilgreinanlegrar ástæðu, spangólandi og af froðufellandi af sælgætisáti og frekju. Maðurinn á hæðinni fyrir ofan kaupir sér harðviðarhurðir svo hann geti barið þær sundur með sleggju, eða þannig hljómar það, hvað svosem það er sem hann gerir. Sama gildir um samliggjandi íbúð í næsta stigagangi. Upprennandi glæpamenn þjóðarinnar sprengja eldflaugar sínar víðasthvar um hverfið og öskra við undirleik djöfulgangsins með sínum fimbulþverþroskaskeiðsröddum svo undir glymur í fjarlægum fjallasölum. Litli bróðir talar við sjálfan sig þegar hann spilar tölvuleiki. Það er aðeins dropinn sem fyllir mælinn. Eins og bókin sé ekki nóg til að pynta mig. Því spyr ég hvort sé einhver tilfáanleg/ur með mér á Þjóðarbókhlöðuna í vikunni?