Homo consumus

Kona frá MasterCard hringdi í mig um daginn og bauð mér kort. Ég sagði: „Jájá, alveg eins … þarf ég nokkuð að gera eitthvað?“ Svo var ekki. Og þá er maður fyrst orðinn alvöru Íslendingur, handhafi gullkorts MasterCard með 150.000 króna heimild án ábyrgðar (guðminngóður). En hvar endar þetta? Áður ég veit af verð ég búinn að kaupa 5 milljóna króna jeppa á raðgreiðslum, George Foreman grill og jafnvel nokkra danska banka í leiðinni. Útrásin og allt það.

En allir byrja smátt. Ég keypti mér píputól og tóbak, raunar ekki með kortinu fína enda stendur ekki til að nota það. Ég fékk nefnilega svo fína pípu að gjöf frá föður mínum að nú er sérstakt tilefni til að vanda sig við að reykja hana til. Hef verið að lesa mér til á síðum sem þessari og þessari um hvernig best sé að gera það.
Annars hafa allar tilraunir mínar til alvöru pípureykinga farið út um þúfur, líklegast fer eins um þessa. Einn daginn hætti ég svo líklega alveg að reykja. En við sjáum til hvenær það verður. Helst dettur mér aðeins eitt í hug sem í nánustu framtíð gæti orðið til þess.

Mataræði og útivist

Fann loksins ullarpeysuna sem amma prjónaði á mig haustið 2004. Hún er hlý og góð og kom sér vel áðan þegar ég gekk út í búð að kaupa framúrstefnuleg matvæli. Framúrstefnuleg fyrir mig, því ég borða einungis óhollustu. Þá er ég ekki að segja að súrmjólk með púðursykri og bananabitum sé neitt sérlega hollur matur nema í litlu magni, en það er þó skref í áttina. Skrítið að verða saddur á svona sulli, það er eins og ég hafi ekki borðað neitt, bara bægt frá hungri. Já, ég er svona ruglaður. Er ekki vanur að borða staka máltíð sem ekki inniheldur einhvers konar kjöt.

Þessu samhliða ætla ég að stunda mikla útiveru í sumar, eða eins mikla og vinnan leyfir á annað borð. Fái ég draumastarfið verð ég ekki mikið úti fyrr en eftir klukkan sjö á kvöldin. En já, göngutúrar í sumarblíðu, það er stefnan. Ætla að prófa að tölta yfir hrygginn neðan við hús föður míns í Grafarholtinu strax eftir próf. Svo er von mín að ég megi yfirgefa bæinn sem oftast yfir sumarið. Reyna að njóta náttúrunnar meðan hún er til.