Homo consumus

Kona frá MasterCard hringdi í mig um daginn og bauð mér kort. Ég sagði: „Jájá, alveg eins … þarf ég nokkuð að gera eitthvað?“ Svo var ekki. Og þá er maður fyrst orðinn alvöru Íslendingur, handhafi gullkorts MasterCard með 150.000 króna heimild án ábyrgðar (guðminngóður). En hvar endar þetta? Áður ég veit af verð ég búinn að kaupa 5 milljóna króna jeppa á raðgreiðslum, George Foreman grill og jafnvel nokkra danska banka í leiðinni. Útrásin og allt það.

En allir byrja smátt. Ég keypti mér píputól og tóbak, raunar ekki með kortinu fína enda stendur ekki til að nota það. Ég fékk nefnilega svo fína pípu að gjöf frá föður mínum að nú er sérstakt tilefni til að vanda sig við að reykja hana til. Hef verið að lesa mér til á síðum sem þessari og þessari um hvernig best sé að gera það.
Annars hafa allar tilraunir mínar til alvöru pípureykinga farið út um þúfur, líklegast fer eins um þessa. Einn daginn hætti ég svo líklega alveg að reykja. En við sjáum til hvenær það verður. Helst dettur mér aðeins eitt í hug sem í nánustu framtíð gæti orðið til þess.