Sjoppuferð í Grafarholti fyrir hálftíma

Eftirfarandi frásögn er eins nálægt raunveruleikanum og ég kæri mig um. Nógu nálægt, semsagt:

Ég: Gott kvöld.
Afgreiðslusprund: Góða kvöldið.
Ég: Ég ætla að fá ostborgara og franskar.
Sprundið: Svona númer tvö þá? [bendir á upplýst skilti – 750 krónur fyrir ostborgara, franskar, kokteilsósu og kók]
Ég: Er það eitthvað ódýrara ef ég sleppi kókinu og kokteilsósunni?
Sprundið: Viltu semsagt sleppa kokteilsósunni?
Ég: … já, og kókinu.
Sprundið: Það kostar það sama.
Ég: Engu að síður vil ég sleppa kókinu.
Sprundið: Það er ekki hægt.
Ég: Nú … ?
Sprundið: Þú ert samt rukkaður fyrir það skilurðu.
Ég: Geturðu ekki bara skilið það eftir í kælinum samt?
Sprundið: Nei.
Ég: Ertu þyrst?
Sprundið: Ha?
Ég: Hvað segirðu um að ég kaupi handa þér kók? [blikka hana lymskulega]
Sprundið: Ertu að reyna við mig?!
Ég: Nei, [andvarpa þungan] hvað ef ég GEF þér kókið?
Sprundið: Ég má það ekki!
Ég: Já en … ! Æ, allt í lagi, gleymdu því. Ég skal kaupa kók. [greiði sprundi 680 krónur]

Ég les grein í blaðinu Blaðinu um komu Gorbatsjevs meðan sprundið steikir ketið, hugsa jafnt sprundi sem Gorbatsjev þegjandi þörfina. Eftir skamma bið skellir sprundið poka og kókflösku á afgreiðsluborðið:

Sprundið: Gjörðu svo vel!
Ég: Takk. [geng í burtu án þess að taka kókið]
Sprundið: Ertu að gleyma kókinu þínu??
Ég: Já! [fer út]

15 thoughts on "Sjoppuferð í Grafarholti fyrir hálftíma"

 1. Hjördís skrifar:

  Hahahahaha þú hlýtur að vera yndislegur kúnni! Brýtur grundvallarreglur sjopputilboðanna!

 2. Þetta er voðalegt ástand á mér. Hvað gerir eiginlega maður sem á meira en nóg af kóki en er þó ekki einu sinni neitt sérstaklega hrifinn af því? 😉

 3. Brynjar hinn spaki skrifar:

  Hvað er það með þig og drykki þessa dagana, Arngrímur? Gæti mótþróinn ekki beinst í nýtari hluti, eins og t.d. ávexti?
  *Ljómar upp*

 4. hildigunnur skrifar:

  HAHAHAHAHA! Hvað er eiginlega hægt að vera vitlaus? Ætli sjoppueigandinn hefði orðið glaður?

 5. Þorkell skrifar:

  Hahaha. Þetta var fyndið. En af hverju vildiru samt ekki kókið ?

 6. Ávextir? Piff.
  Áreiðanlega verður allt vitlaust þegar aukaflaska dúkkar upp við vörutalningu. -Hvaðan kemur þessi flaska? Hvar er Scotland Yard þegar maður þarf á þeim að halda?!
  Af hverju ég vildi það ekki? Æ, mér bara fannst eins og ég hefði ekkert við það að gera.

 7. Þórunn skrifar:

  Var þessi sjoppa verndaður vinnustaður?

 8. Þú ert svo vond!

 9. Brynjar hinn spaki skrifar:

  Næst skaltu segja að þú getir ekki tekið það af siðferðislegum ástæðum. Þá getur hún ekkert sagt!

 10. Ásgeir skrifar:

  Já, mér finnst að þegar maður biður um eitthvað ákveðið í sjoppu þá eigi afgreiðslufólkið annaðhvort að taka pöntuninni eins og hún er og ef að eitthvað tilboð er til þess að gera það ódýrara þá á það að vera óvæntur glaðningur en ekki leiðinlegt vesen. En þessi saga var samt alveg glaðningur.

 11. Eða af trúarástæðum. Það hlýtur að virka.
  Þessi sjopputilboð eru sjaldnast til að gera hlutina ódýrari, bara til að fá mann til að kaupa meira. Hefði hún ætlast til þess að ég tæki kókið ef ég hefði beðið um Svala til að drekka með? Ég held nefnilega ekki.

 12. silja skrifar:

  Piff..mig langar í kók. Þú hefðir bara átt að skutla þessari flösku til mín 😉

 13. Hvað veit ég nema það megi ekki heldur …

 14. Sunna skrifar:

  Sko ég sit hérna fyrir framan tölvuna að drekka fanta og það munaði svo litlu að ég hefði frussað fantanu yfir lyklaborðið. Ég hefði klárlega rukkað þig fyrir það….snilldarfærsla.

 15. Hahaha, mín var ánægjan! 🙂

Lokað er á athugasemdir.