Stúdent

Í gær brautskráðist ég frá Menntaskólanum við Sund, eftir þriggja ára nám þar. Athöfnin mun hafa verið skemmtileg miðað við aðrar slíkar, Már Vilhjálmsson rektor reitti af sér brandara og ræðan hennar Hjördísar Öldu ármanns var öldungis prýðileg.
Ég hlaut þrjár viðurkenningar, fyrir framúrskarandi árangur í ensku (9,5), fyrir ágætt kjörsviðsverkefni (10) og fyrir framlag mitt í þágu skólans. Þrenn bókarverðlaun fékk ég fyrir þetta, Frelsið eftir John Stuart Mill fyrir ensku, Handan góðs og ills eftir Nietzsche fyrir kjörsviðsverkefnið Kennivald: Þróunarsaga Rómversk-katólsku kirkjunnar frá frumkristni til siðskipta (átti hana raunar fyrir) og Hálendið í náttúru Íslands fyrir félagsstörfin. Íslenskuverðlaunin langþráðu fékk ég ekki því ég klúðraði prófinu mínu. En það skiptir svosem ekki máli.
Gjafir fékk ég alltof margar, þá sem mér þótti vænst um fékk ég frá Sigurrósu Erlingsdóttur kennslustjóra og íslenskukennara mínum, bókina Engar smá sögur eftir Andra Snæ Magnason. Að sjálfsögðu varð ég vandræðalegur og þakkaði ekki nógu vel fyrir mig. Aðrar bókargjafir voru Um skáldskaparlistina eftir Aristóteles (sem ég átti fyrir), Heimur ljóðsins, Þjóðsögur Jóns Árnasonar, Perlur í skáldskap Laxness (henni skipti ég, finnst skemmtilegra að bara lesa sjálfar bækurnar), Íslenzkt orðtakasafn og Birtíngur eftir Voltaire, í þýðingu Halldórs Laxness útgefin 1945.
Sængurföt fékk ég, blóm, peninga, Grant’s skota og heimalagað rauðvín. Jakka og vesti hafði ég fengið fyrirfram og frakka. Eins og þið sjáið, alltof margar gjafir. Það er eiginlega bara vandræðalegt.
Eftir fremur fámenna veislu heima hjá mér var farið niður í bæ eins og lög gera ráð fyrir. Partíið sem varð ekki í Iðnó varð nú bara samt og þar hitti ég nokkra góða bekkjarfélaga, en ég staldraði ekki lengi við. Dottið var á pöbbarölt í góðra vina hópi, nokkrum hópum raunar því ég flakkaði á milli, og ekki var komið heim fyrr en um sexleytið í morgun. Og hvað segir maður þá? Þetta er búið.

8 thoughts on "Stúdent"

 1. Þórdís skrifar:

  Innilega til hamingju með þetta fína próf. Hér eftir munu öll þín próf verða leikur einn.

 2. Steindór skrifar:

  Til hamingju. Vel að þessu kominn.

 3. Hjördís skrifar:

  Til hamingju með áfangann og ég þakka hólið 🙂

 4. Þakka ykkur öllum kærlega góð orð!

 5. Þórunn skrifar:

  Innilega til hamingju með áfangann kallinn 😉 Er ekki hægt að ráða þig í vinnu við að klára þetta fyrir mig líka?

 6. Ekkert mál, maður hefur nú gert þetta minnst einu sinni áður! 😉

 7. Kristján skrifar:

  Til hamingju, Arngrímur! Og gangi þér vel í háskólanáminu 🙂

 8. Þakka þér kærlega fyrir það, og alla aukatímana í stærð- og eðlisfræði gegnum árin!

Lokað er á athugasemdir.