Í Árbæjarsafni

ÁrbæjarsafnFór með Alla á Árbæjarsafnið í gær, í fyrsta skipti í tæp sextán ár. Hittum Hjördísi og Kristínu Láru í miðasölunni. Hjördís var langflottust í upphlutnum, finnst hún ætti að fá sér sinn eigin til að vera í á tyllidögum.

Það fyrsta sem bar fyrir augu þegar inn var komið var hópur fólks að stíga þjóðdansa. Þar hittum við Steinþórsson útvarpsmann, en við Alli flúðum fljótlega þegar áhorfendur voru beðnir að taka þátt í Vikivaka. Pönk- og diskósýningin í Kornhúsinu var ágæt, fannst þó fulllítil áhersla lögð á pönkið miðað við diskóið. Samkvæmt Steinþórssyni mun gömul kona í þjóðbúningi hafa dansað þar á ljósfleti við diskótónlist. Synd að hafa misst af því. Þegar kom að torfhúsunum varð ég fyrir örlitlum vonbrigðum, því mig minnir að það hafi verið kýr á básunum í Árbæ þegar ég var lítill. Minnist þess altént að hafa sprautað á bróður minn úr spenum einnar þeirra. Það er samt alltaf jafn gaman að koma í torfbæi. Það vekur upp svo sérstakar stemningar.

Eftir dágóðan rúnt um safnið enduðum við Alli í Dillonshúsi að fá okkur vöfflur og kaffi, en þá voru aðeins um tuttugu mínútur í lokun. Við Alli gerðum okkur að góðu þær kræsingar sem við gátum notið á þeim skamma tíma (ég át mig a.m.k. saddan), en ekki voru allir eins ánægðir. Það var allt vitlaust inni í eldhúsi, stelpurnar að hamast við að hrúga kökum og vöfflum á borðin, sem hurfu jafnóðum svo lengstum voru þau tóm. Einn kúnninn ákvað því að standa inni í eldhúsi og skammast í stelpunum fyrir lélega þjónustu. Annar kúnni kvaðst ekki hafa fengið kakóið sem hann pantaði hálftíma áður. Honum var boðið hvað sem hann vildi í staðinn, eða að bíða í fimm mínútur í viðbót eftir kakóinu, en hann vildi ekkert. Á endanum slapp hann við að borga. Við hin fengum afslátt án þess að biðja um hann (án þess að vilja hann). Ég þoli ekki svona. Þær voru allar af vilja gerðar en fengu ekkert nema vanþakklæti. Svo fremi sem ég sé stóðu þær sig eins og hetjur.

En allajafna var ferðin hin ánægjulegasta og greinilegt að ég hef misst af miklu á öllum þessum árum sem hafa liðið milli heimsókna á Árbæjarsafnið.

7 thoughts on “Í Árbæjarsafni”

  1. Þetta var alvöru dagur! 😀
    Næsta góðveðursdag skulum við kíkja aftur á safnið og láta bakast í sólinni við einn húsgafl torfbæjanna. 🙂

  2. Aldrei! ALDREI!!! Bölvuð helvítis frekja alltaf í þessu liði …
    Jú, auðvitað máttu koma, þó það nú væri 🙂

  3. Komiði aftur! Á góðviðrisdögum er yndislegt að vera á Árbæjarsafni, ganga um svæðið, drekka kaffi í gamla bænum, finnast maður horfinn aftur í tímann (ef maður lítur ekki of mikið í kringum sig til að sjá umferðargöturnar og nútímahús). Mamma á upphlutinn Arngrímur, og ég nota hann á sérstökum tyllidögum, sem hingað til hafa verið fermingardagurinn og síðasti 17. júní. Komiði aftur, og ég tek með ykkur diskódans á ljósagólfinu, hvort sem ég verð í peysufötum eða öðru.
    ps. Kýrin er komin, hún kom í dag. Hún er mjólkuð um 4 leitið, og áhugasamir fá vafalaust að spreyta sig á spenunum! 😉

  4. Já, ég stenst nú ekki svona boð! Við komum pottþétt aftur á sólríkum degi, dönsum allan daginn og togum í kusur.
    Þakka annars fyrir að hafa verið hleypt inn ókeypis. Ef þú kemur á safnið er aldrei að vita nema ég geti töfrað fram ókeypis endurnýjun á skírteinið þitt! 🙂

  5. ójá, mig vantar einmitt svoleiðis! Og gleymum svo ekki Unuhúsi, það er á dagskrá sumarsins. Get ekki fundið neina nánari dagsetningu sem stendur því allt er á rúi og stúi í flutningum núna.. En sumarið er ágætis rammi og af þessu skal verða!

Lokað er á athugasemdir.