Minning af draumi

Kaffihús draumannaÞað var draumur sem breytti veröldinni eitt andartak, skóp liðna atburði úr engu og skildi mig eftir með tilbúnar minningar er ég vaknaði. Það tók mig dágóða stund að átta mig á því að líklega hefði tvílyfta kaffihúsið við Klapparstíginn aldrei verið til, og að þær kvöldstundir tvær sem ég eyddi þar, fyrst í sælu, síðar í skugga minninganna, höfðu aldrei átt sér stað.

Ég fór í það fyrsta sem ég sá á baki skrifborðsstólsins, grá jakkaföt, klúturinn enn í brjóstvasanum frá því kvöldinu áður, hafði mig eilítið til og arkaði út á lokaða götuna. Þar kenndu ung hjón tveimur börnum sínum að hjóla, úti á miðri götunni. Það var þá, sem ég gekk niður götuna á sólríkum sunnudegi, að ég uppgötvaði hvað var raunverulegt og hvað ekki. En samt, er ég steig upp í bílinn sem beið mín við enda götunnar, var það í skugga hinna tilbúnu minninga, skugga sem jafnvel birta sólarinnar gat ekki hrakið á brott.

Hver segir svo sem að það sem gerist í huga manns sé ekki raunverulegt, eða að það sem aðeins virðist raunverulegt geti ekki haft raunverulegar afleiðingar? Það er nefnilega svo að á þessum sólríka sunnudegi í júlí, sat ég að kvöldlagi um hávetur uppi á annarri hæð kaffihússins við Klapparstíginn, einn með minningar mínar, og horfði með öðru auganu á Ítali vinna Frakka í heimsmeistarakeppni í fótbolta. Minningar geta verið sterkar þótt þær séu tilbúnar, þær geta skapað veraldir nýjar og breyttar. Þá tilheyrir að grípa stemningarnar í loftinu, moða úr þeim blöndu af skáldskap og veruleika. Og kalla það list.

2 thoughts on “Minning af draumi”

Lokað er á athugasemdir.