Það eru óendanlega margar leiðir sem ég hefði getað farið við að skrifa síðustu færslu, samt varð þessi nálgun ofaná. Hvers vegna ætli það sé?
Sit núna á Prikinu við yfirferð á handriti. Ekki til að drekkja sjálfum mér í tilgerð, heldur vegna þess að enn hef ég ekki hunskast til að kaupa mér kaffivél. Skrifa ekki mikið án þess. Sjáum hvort andinn láti nokkuð sjá sig hér í bítlaómi og enskurómi Íslendinga sem neita að mæla á eigin tungu. Njörður P. Njarðvík á vappinu hér fyrir utan. Kannski blæs nærvera hans mér sjálfri lýrík allífsins í brjóst.
Hér eru annars komin hugrenningatengsl, vegna umfangsmikilla skrifa Njarðar í Morgunblaðið: Friðrik Erlingsson skrifaði á dögunum grein í Moggann um „ofbeldismengun“. Undir greininni stóð að höfundur stundaði ritstörf, sem er ekki fjarri lagi, því hann er rithöfundur. Ætli starfsfólki Morgunblaðsins þyki Friðrik ekki nógu verðugur titilsins? Nema sé það meðvituð tilraun Friðriks sjálfs til að fjarlægja sjálfan sig listinni; það virðist enda vera hægt að afgreiða málflutning listamanna á einu bretti, með því að opinbera þá meinlegu staðreynd að þeir séu „bara listamenn“. Þar með hljóta þeir sjálfkrafa að vera eitthvað vangefnir.
Þú velur sjálfur hvernig þú ert titlaður þegar þú sendir inn grein í Moggann, ég held þeir breyti því varla nema þú sért óákveðinn og sendir inn hálfa ferilsskránna, þá gæti þurft að stytta …
Já, ég veit, mér fannst þetta bara fyndið.