Þórbergur og King

Þetta hefur nú verið meiri helgin, er fullkomlega búinn á því eftir hana, og mörgum krónum fátækari. Nú gildir að ná sér aftur upp í lestrinum, þyrfti að klára þessa Ishigurobók sem fyrst, er skyndilega kominn með gríðarlega löngun til að leggjast á fullu í Þórberg. Ýmsar bækur á leslistanum þar: Sálmurinn um blómið, Rauða hættan, Suðursveitarbækurnar. Líklega byrja ég á Sálminum og les svo Kompaníið hans Matthíasar. Eftir viðtalsbókina hans Gylfa við Margréti hef ég fengið aukinn áhuga á svoleiðis bókmenntum. Aldrei að vita nema ég taki törn bara í að stúdera þær.

Sá svo brot úr hryllingsmyndinni Dreamcatcher áðan, eftir sögu Stephens King. Þar var maður að hægja sér þegar skrímsli stökk upp úr klósettinu og beit hann í rassinn. Ekki alveg minn mesti ótti í lífinu, en maður kannski hefur það svona bakvið eyrað næst þegar náttúran kallar. Freudíska bókmenntagreiningin myndi svo kannski leyfa þá túlkun að hér sé um bældar æskuminningar höfundar að ræða.

Í öllu falli hefur mér nú tekist að ræða Þórberg Þórðarson og Stephen King í sömu bloggfærslu. Samanburður á þeirra verkum tæki áreiðanlega aldrei langt útfyrir gálgahúmor. Fyrir utan auðvitað yfirgripsmikla þekkingu beggja á hryllingi hversdagslegra martraða – Þórbergur lætur hrökkál úr tjörninni bíta sig í besefann en King lætur skrímsli í klósetti bíta náunga í rassinn. En þetta var nú gálgahúmor, mikil ósköp.

4 thoughts on "Þórbergur og King"

 1. Freudísk bókmenntagreining myndi alls ekki segja að um bældar minningar höfundar væri að ræða. Nánast engin teóría á 20. öldinni myndi ræða um höfundinn í þessu samhengi.
  Sálgreining á textanum myndi frekar einbeita sér að finna ödipusarduld, fallusartákn, samspil og rof sjálfanna o.s.frv. Og það yrði gert á forsendum textans sjálfs og öllum þáttum innan hans.

 2. Hugtakið „texti“ er hér þá notað í víðari mynd heldur en lesinn texti. Því hér er um kvikmynd að ræða, og sömu lögmál gilda þar og í skáldskap, textalega séð.

 3. Ég sagði þetta nú ekki í neinni alvöru, auðvitað er enginn það geðveikur að ætla sér að sálgreina rithöfundinn. Í það minnsta vona ég það!
  En kannski er ófreskja í klósettinu skýrt dæmi um ótta við að vera tekinn með buxurnar niðrum hælana, af föðurnum, við þann verknað að sænga með móðurinni. Það var nú líka hálfgerður áll hjá King, sem gæti verið reðurtákn, ef ekki hjör.

 4. Einar Steinn skrifar:

  „Ef ég væri orðinn ógnalangur áll
  örmjór og háll
  myndi ég alltaf alltaf hringa mig
  utan um þig“
  en orðið þér Orma frú Norma?
  – og hvað segir svo Freud um það?

Lokað er á athugasemdir.