Í bókinni Rokland eftir Hallgrím Helgason má finna svartan og sprúðlandi húmorinn úr 101 Reykjavík, ef marka má bókarkápu. Sprúðlandi?
Af öllum þeim orðabókum sem ég fletti upp í, þ.m.t. Íslenskri orðabók og orðabanka Íslenskrar málstöðvar, fann ég þessa orðmynd aðeins í lýsingarhætti nútíðar sagnorðsins sprúðla í Orðabók Háskólans. En enga merkingu eða dæmi um notkun.
Jafnframt kemur í ljós í Orðabók Háskólans að elsta heimildin um þetta orð er Þórbergs-Edda, bls. 176 í frumútgáfu frá 1941. Leit í yngri útgáfum leiðir ekkert í ljós á þessu blaðsíðutali.
Sé orðinu flett upp í Google finnst aðeins téður lh. nt. af þessari sögn. Þar sést það m.a. notað í sambandi við fólk, frásagnir, drykki og sköpun. Leitarniðurstöður eru 84 að meðtöldum tvítekningum.
Þetta er nærri því jafn nördalegt og fróðleikurinn um íslensku skinkuna í Árnagarði um daginn … og þú ert rétt að byrja í íslensku?
Hvort hengja sé hlaupin í kjötið? Eitt það allra mikilvægasta sem menn þurfa að veita athygli er þeir bisa við að reykja hangilæri.
En pælingin hér er hvort aðeins ein tiltekin mynd orðsins hafi komist í almenna málnotkun, og þá hvort fólk geri sér almennt grein fyrir réttri notkun þess eða merkingu.
Upptök færslunnar liggja nefnilega í því að ég var sjálfur ekki viss um hvað sprúðla þýðir, þótt auðvelt sé að gera sér getgátur um það, og þetta er það sem leitin skilaði.
„Þú ert nú meiri sprúðlarinn, hohoho!“
Ansi flott, annars, að Þórbergur sé elsta heimildin.
Það getur þýtt eitt af tvennu: Hann þekkti orðið vegna starfa sinna við orðasöfnun, sem gæti skýrt hvers vegna það var hvergi til annarsstaðar á prenti, ellegar bjó hann það til.
Mig er raunar farið að langa til að komast til botns í þessu. Kannski maður kíki á frumheimildina.