Barist um brauðið

Klukkan var tuttugu mínútur í átta í morgun, um hálftíma eftir að ég skrifaði síðustu færslu, að ég skakklappaðist inn í eldhús í hálfannarlegu ástandi til að fylgja eftir því einfalda markmiði að smyrja mér nesti, nokkuð sem heyrir til undantekninga að ég geri þótt það komi sögunni ekki beinlínis við.

Svo illa var fyrir mér komið fyrir þreytu sakir að ég gekk rakleiðis framhjá brauðinu, en staðnæmdist við gluggann og horfði út yfir vesturbæjarmorguninn nokkra hríð í draumkenndu ástandi, með eitthvert nagandi suð fyrir eyrunum, sem ég gaf raunar ósköp lítinn gaum að. Annað hvort var það fiskifluga eða ég orðinn geðveikur, nema hvort tveggja væri. Leit samt upp yfir mig til að ganga úr skugga um hvort væri, og við mér blasti hinn hræðilegi sannleikur: Ég var ekki geðveikur, þetta var stærðarinnar geitungsskepna. Nú voru góð ráð dýr!

Ósjálfrátt tók ég að bakka í átt til dyra með ýtrustu varkárni, betra að trufla ekki þetta skrímsli, betra að það verði óviðbúið þegar vöndur minn ríður yfir bakið á því! En við þessa hugsun truflaðist skepnan og flaug í humátt eftir mér óðfluga. Gegn þessu bragði var ég óviðbúinn, og hnaut um þröskuldinn svo ég féll nærri óvígur í gólfið. Mér hafði lánast að bjarga mér í þetta skipti, en helvítis ófreskjan hafði enn öll tromp á hendi sér. En skyndilega missti skepnan áhuga á mér og réðist á brauðið. Brauðið! Nei, andskotinn! Og ég óvopnaður.

Ég hljóp fram, skellti á eftir mér hurðinni og blés þungan. Helvítið hafði unnið fyrstu lotu, en ég var staðráðinn í að láta ekki kippa svona undan mér stólnum án hefnda; því leitaði ég hjörvar um gervallan sjöt minn, raunar svo yfirgengilega innblásinn hetjumóði og blóðþorsta að mér yfirsást öll þau miklu og margslungnu eggvopn sem iðulega liggja á víð og dreif um íbúðina; eins og kerling að leita að lonníettum á eigin nefi. Því höguðu örlögin því þannig til að ég æddi aftur inn í eldhús, vopnaður tómum kassa utan af rafmagnstannbursta. Til einhvers duga þá apparötin.

Undan heilögum gunnfána þusti ég þannig inn í súlnasal eldhúss míns æpandi hin mestu stríðsöskur, vopnaður þessum pappa, hertum í ginnheilugum vafurloga sjálfs almættisins. En þá var kykvendið horfið, gufað upp eins og fyrir einhvern svartagaldur. Ég læddist ofurvarlega um og gægðist í hvern krók og kima, viðbúinn launsátri án fyrirvara. Ekkert sjáanlegt. Mér féllust hendur og ég settist, þó var um mig, á eldhúskoll. Þá skyndilega verð ég þess var hvar skepnan hýrist á glugganum, eins og höggormur undan guðs augliti. Ég læddist upp að honum, þrýsti næst öllum líkamsþunga mínum á voldugan pappakassann utan af heilögum tannbursta mínum, geitungur milli hans og rúðu. Verkinu lokið.

Nema hvað, fjandans dýrið hafði það af og réðist að mér. Þá fyrst varð mér ljóst hvað ég átti í höggi við: Satan. Mín fyrstu viðbrögð voru að slá þessa ókind niður. Það tókst! Skepnan féll undan högginu niður í gluggakistu, ofan í þriggja sentímetra breiða skotgröf milli rúðu og ytri gluggakistu. En hvað svo, enn virtist ógnvaldur minn hafa lifað af höggið, sennilega að undirbúa aðra árás. Satan! æpti ég og lét kassann dynja á ófreskjunni sem best ég gat; vandamálið var að vopn mitt var breiðara en skýli skepnunnar. Svo þetta tók sinn tíma. Kannski um fimm mínútur sem hún tók, síðasta orrusta stríðsins um brauðið.

Það var ekki síður sársaukafullt fyrir mig en fyrir óargadýrið, að þurfa að murka svona úr því líftóruna hægt og bítandi, yfir tímaskeið sem jafngilti nokkrum árum fyrir það miðað við meðallíftíma. Ef til vill náðum við nokkurs konar samlíðan á þeirri stundu, ég og geitungurinn. Báðir vissum við að svona hefði getað farið fyrir mér, og að geitungurinn hefði ekki hikað eitt andartak við að veita mér sömu meðferð, en við skildum þó hvorn annan, og aftakan fór fram með hinum mestu virktum. Fluguna heygði ég að víkingasið.

En ég hafði sigur að lokum og allt þetta umstang gerði það að verkum að ég var orðinn glaðvakandi og ferskur.

Húrra!

5 thoughts on "Barist um brauðið"

 1. Avatar Binni skrifar:

  LOL. Sagan af brauðinu dýra í nútímabúningi?

 2. Verð reyndar að játa að ég á alveg eftir að lesa þá sögu, hef bara séð hana í einhverri hryllilega stórri, myndskreyttri útgáfu og aldrei alminlega vitað hvað um væri að ræða.

 3. Avatar farfuglinn skrifar:

  Dýramorðingi!
  Annars geri ég undantekningu þegar um er að ræða geitunga. 😉

 4. Avatar Alliat skrifar:

  Merkilegt… ég verð alltaf stunginn í svona einvígi… jafnvel síðast þegar ég ákvað að dúða mig allan upp svo hvergi ætti djöfullinn höggstað á mér… reyndist hann þá sitja um mig inni í öðrum hanskanum sem ég ætlaði í, helvískur! >:-(

 5. Ég hefði viljað stjaka honum út um gluggann, en þá veittist hann að mér. Mér er sagt að miðað við stærð hafi þetta mögulega verið drottning …
  Þegar ég heyri orðið drottning um pöddur verður mér alltaf hugsað til drottningarinnar úr Aliens, og hversu öflug hún var miðað við litlu vinnudýrin.

Lokað er á athugasemdir.