Hvernig get ég betur komið orðum að þessum degi? Himinninn dimmblár og þungskýjaður, samt liggja sólargeislar á húsunum. Nærri búinn að kasta upp yfir tannburstann minn og fannst ég voða kvalinn og afskiptur í vondum heimi. Flýgur mér í hug að eina rökrétta svarið sé að trítla út í bakarí.
Laufin fljótandi um rýmið og allt umhverfis mig sem ég gekk sem leið lá niður í Björnsbakarí við Hringbraut í sömu múnderingu og kvöldinu áður, svörtum jakkafötum og ljósgrárri skyrtu, að viðbættum frakka. Við það að kasta upp yfir mig allan og haustið og bæinn og laufin. Maginn gerónýtur.
Í bakaríinu hef ég litið út eins og einhvers konar blanda af barni og umrenningi, því það var fullt af fólki í röðum, og einn fólkurinn spyr mig hvort ekki sé verið að afgreiða mig, og ég svara neitandi. -Í guðs bænum drengur, fáðu einhvern til að afgreiða þig, ha! Það meikaði sens svo ég gerði mitt besta til að biðja um rúnstykki. -Ettu alveg viss um að þú megir kaupa þér gott fyrir alla þessa pénínga? spyr skessan í bakaríinu mig. -Það segi ég ærlega, sem ég lifandi stend hérna! kjökra ég út úr mér.
Fæ bláblæðandi rúnstykki og kaffi fyrir keisara, ef marka má verðið. Hef mig á brott með þetta og treð í mig á ganginum, þessu eitri sem virðist ætla að tortíma dreggjum meltingarkerfisins. En þótt það sé eitur núna verður það til góðs seinna, sér er hvert eitrið til hollustu eða hvað maður segir, næringin kyssir á bágtið. Maginn herptist við hvern bita og öskraði: Djöfulinn ertu að gera maður?! Ekki bætti kolsvartur hroðbjóðurinn í pappamálinu úr skák, hlaupkenndur óþverri varla nokkurri lifandi veru bjóðandi.
Haustið flaug yfir með nokkurri fullvissu um sjálft sig eins og táningur á sportbíl troðfullum af kvenfólki, inni í því miðju fer höfundur textans spásserandi yfir Landakotshæð, mætir þar manni og hundi sem fyrrnefndi virtist einum of óðfús að siga. Það er vald í svona skepnum. Tók lengri leiðina heim niður Stýrimannastíg, einhverja þá alfallegustu götu Reykjavíkur. Mætti þar tveimur túristakvinnum hneyksluðum á atgangi þessara drykkjumanna, vafrandi svona um göturnar á sjálfum sunnudagsmorgni! En það var nú bara kaffi í málinu mínu. Búinn að vera ófullur á rólinu síðan um sex. Kannski voru það jakkafötin.
Sunnudagsmorgnar eru líka í stórkostlegu uppáhaldi hjá mér. Fyrr mætti nú vera að eiga að banna mér að njóta þeirra svo enn sé hægt að halda í hræ hinnar íslensku ferðaþjónustu. En eitt er víst í öllu saman að ég er hættur að drekka. Í það minnsta meðan líkaminn ræður ekki betur en svo við örfáa bjóra að hann eyðileggur fyrir mér heilu kvöldin og dægrin og sunnudagsmorgna að hausti.