Veikari

Eitthvað virðist mér hafa slegið niður í dag. Mætti í skólann í dag og var svo brattur á eftir að ég leit aðeins inn á Uppsali, settist niður með kaffibolla og lagaði sitthvað í handritinu mínu.

En nú ligg ég armur og aumur uppi í sófa með tebolla og parasetamól mér við hönd. Nú gildir því að taka því rólega ef ég á að geta mætt til vinnu á morgun. Leyfi mér ekki þann lúxus að taka annan frídag í að aumingjast heima.

Innihald fjarlægt

Það er ekki á hverjum degi að ég fái ábendingar um innihald þessarar síðu, en þegar svo ber við eru það jafnan sanngjarnar kröfur. Til dæmis þegar ónefndur stjórnmálafræðingur bar af sér rangar sakargiftir á eldri útgáfu Bloggsins um veginn. Vitanlega var það leiðrétt, enda ómaklega að honum vegið og mér lítt til sóma að láta það standa.

Að þessu sinni kom ábendingin raunar frá þriðja aðila og ekki á formi raunverulegrar kvörtunar. Mér fannst þó réttast að fjarlægja litla sögu sem ég hafði eftir téðum aðila og gerði á sínum tíma ráð fyrir að væri fjarska saklaus í endursögn. En ef til vill er alltaf best að halda slíkri þórðargleði fyrir sjálfan sig.

Vandamál dagsins

Sá mikli áhugi sem ég eitt sinn hafði á hljóðfræði er alveg fokinn út um gluggann. Liggur við að ég öfundi bókmenntafræðinema að fá að rúnka sér yfir bókmenntum daginn inn og daginn út í stað þess að lesa þessa epík: „Greinimörkin sem notuð eru [til að greina á milli samhljóða s.s. [i] og [j], innsk. bloggara], t.d. hljóðmyndun, hljóðgildi og atkvæðisgildi, eru hverful og geta brugðist á úrslitastundu.“ Eins gott að hafa það á hreinu þegar heimurinn rambar á barmi hljóðmyndunarlegra ragnaraka. Nei, þá hringi ég heldur í fónembösterana Kristján Árnason og Jörgen Pind.