Það er ekki á hverjum degi að ég fái ábendingar um innihald þessarar síðu, en þegar svo ber við eru það jafnan sanngjarnar kröfur. Til dæmis þegar ónefndur stjórnmálafræðingur bar af sér rangar sakargiftir á eldri útgáfu Bloggsins um veginn. Vitanlega var það leiðrétt, enda ómaklega að honum vegið og mér lítt til sóma að láta það standa.
Að þessu sinni kom ábendingin raunar frá þriðja aðila og ekki á formi raunverulegrar kvörtunar. Mér fannst þó réttast að fjarlægja litla sögu sem ég hafði eftir téðum aðila og gerði á sínum tíma ráð fyrir að væri fjarska saklaus í endursögn. En ef til vill er alltaf best að halda slíkri þórðargleði fyrir sjálfan sig.