Dunaður er dansinn

Mikið þykir mér vænt um alla þessa vitleysinga sem ég á að vinum. Í einu kraðaki á Kofa Tómasar frænda, eins og í Twister, reynandi að drekka bjór undir handarkrika næsta manns og seilast í sígarettur með hinni undir löpp og yfir bak á tveimur öðrum. Mynda svo eina dansandi hrúgu milli bars og borða, ofaná stólum, undir hverju öðru, hoppandi, hlæjandi, drekkandi, reykjandi, æpandi í yfirþyrmandi kátínu. Svona eiga kvöldin að vera.

Allir eru í rífandi hátíðarskapi eftir dúndurvelheppnað ljóðakvöld Nykurs á Litla ljóta andarunganum síðastliðinn fimmtudag. Góð stemning, troðfullt af fólki, gerður góður rómur að skáldum eftirá, allir í miklu stuði á meðan. Jón Örn átti kvöldið þegar hann mæmaði ljóðin sín og gerði sitt allrabesta til að útskýra þau. Hefði Silja Aðalsteins fengið sér súpu gæti ég sagt að ég hefði séð hana drukkna í súpudisknum af hlátri, en hún fékk sér enga súpu.
Eftir þetta héldum við Kári, Ásgeir og Steinar Bragi við fimmta mann upp á Ölstofu, hittum þar Ófeig Sigurðsson, og sátum drykklanga stund við drykkju og almennt röflerí um skáldskap og sjálfsútgáfu.

Eftir klímax helgarinnar í gær finnst mér eins og ég hafi gengið gegnum endurfæðingu, í það minnsta var sárt að vakna svona eftir djamm ársins. Sannkölluð skáldahelgi líka, alltaf að hitta einhver skáld, Steinar, Ófeig, Sigurð Pálsson, og svo hitti ég Bjarna Klemenz í gær. Líst ansi vel á bókina hans nýju. Sól og milt frost úti um síðdegið, algjör sunnudagur í algleymingi úti um allt hér í Vesturbænum, sem ég gekk tvær götur til hliðar við mína og sótti bókarkápu og aðra myndskreytingu. Þetta verður ansi eigulegur gripur sýnist mér á öllu, og nú er ekki seinna vænna að senda barnið í umbrot!