Ó, Ísafold!

Fór í klippingu áðan. Austurevrópumaðurinn sem klippti mig alltaf er hættur og farinn austur fyrir tjald (skil hann vel) svo ég fékk þessa líka skemmtilegu stelpu og gleymdi mér í samræðum við hana. Svo mjög að ég sagði henni ekki hvorum megin ég skipti hárinu mínu, og hún klippti mig öfugt. Þetta verður eins og að læra að skrifa með vinstri …

Hrafnfundna land, já. Ekki skil ég hvað heldur fólki hérna. Að minnsta kosti er ég farinn ef „frjálslyndir“ komast til valda. Þá mætti mín vegna fara fyrir búendum hér eins og landnámsmönnum í Norðurbyggð á Grænlandi, hinu hrafnétna þjóðarbroti. Sýnist líka á veðrinu að svo gæti allt eins farið. Ég ætla annars ekki að ráðast í deiluna um hvort Magnús Þór eða Jón Magnúss séu rasistar þótt ég hafi mínar skoðanir. Það skiptir ekki máli. Það sem skiptir máli er á hvaða forsendum fólk mun kjósa þá. Þeim forsendum að þeir vilji Ísland fyrir Íslendinga. Hrafnfundið land fyrir hrafnelska þjóð.

Drungi og djöfullegheit

Það er eitthvað svo einkennilega drungalegt að horfa á regnið fljóta lárétt eftir glugganum mínum meðan skuggamyndir lauflausra trjáa hver ofan í annarri sveiflast til í taktleysi framan við ljósum logandi glugga húsanna á móti. Eins og það sé ekkert annað til í heiminum, trén verða að táknmynd hins illa í huganum. Myrkrið er þvílíkt að það sést ekkert annað en þetta, og vindurinn gnauðar og bárujárnið brakar eins og húsið sé við það að springa innanfrá.

Þetta er einmitt það sem ég reyndi að hafa orð á síðustu helgi, þegar veðrið lét hvað verst. Óveður eru notaleg og á vissan hátt rómantísk. Þá sat ég við kertaljós í rafmagnsleysi og hafði það notalegt. Á hinn bóginn eru hálfgerð óveður eins og þetta verri en andskotinn sjálfur. Og stemningin býður ekki beinlínis upp á huggulega afþreyingu á borð við að klæða sig í rollu, hlaða ofan á sig köttum, slafra í sig tei með meistaraverk í lúkunum og bryðja hrökkbrauð með ostalufsum.

Þetta átti nú ekki að vera svona grótesk lýsing. Kenni veðrinu um.