Það litla sem ég svaf í nótt dreymdi mig hræðilega martröð á meðan. Í henni hafði ég sett einhvern djöfullegan mekkanisma af stað og kallaði þannig fram einhvern hræðilegan óvætt í líki dvergs og skrímslis (ekki spyrja) sem batt Silju vinkonu í einhvers konar völundarhúsi og drekkti henni með því að fylla rýmið af vatni. Allur draumurinn gekk út á að finna Silju, því við trúðum ekki að þetta hefði raunverulega gerst (enda þótt ég hefði sloppið með skrekkinn). Seinna í draumnum var svo eins og ekkert af þessu hefði gerst, samt stóðumst við Silja ekki mátið og settum mekkanismann aftur af stað, svona til að rifja upp hvernig maður færi að. Týpískt fyrir mannlegt eðli eða hvað? Og ekki nóg með það heldur var kreditkortinu mínu synjað í draumnum. Ég vaknaði upp með andfælum.
Og svona til að svara því þá las ég ekki einustu goðsögu eða fornaldarsögu, hagspá eða kortareikning, fyrir svefninn. Ég las í Vasabók eftir Pétur Gunnarsson. Í engu fjallar hún um finngálkn eða önnur skrímsl goðsögulegs eðlis og tæpir hvorki á goðsögulegum minnum né fjármálum. Hvort það í sjálfu sér sé til fyrirmyndar skal ósagt látið. En líklegast þykir mér að finngálknin tvö sem slógust ofan á sæng minni í nótt hafi átt nokkurn hlut að máli.
Æji litla fína sæta 😀 Skemmtileg mynd.
Annars eru martraðir óþolandi.
Obb obb obb! Jæja,það var gott að ég slapp á endanum. Það er örugglega ömurlega óþægilegt að drukkna.
Týpískt af okkur annars að halda áfram að fikta í draslinu!
Nákvæmlega! Það var meira að segja helvítis vesen að gangsetja það, og frekar subbulegt. En ég held að nóg sé komið og við þurfum að hittast oftar fyrst mig er farið að dreyma örlög þín voveifleg.