Aldrei hélt ég að ég yrði álitsgjafi í dagblaði fyrir þrítugt. Það fór þó svo að ég er í Blaðinu í dag meðal spaks fólks að tjá mig um „jólabækur“ sem ég er spenntur fyrir. Þá er þess væntanlega ekki langt að bíða að gerð verði úttekt á eldhúsinu mínu í Fréttablaðinu og fjálglega rætt um matseldarhæfileika mína. Þá geri ég kannski eins og bróðir minn gerði í DV fyrir hálfum áratug og lýg því að kókómjólk sé fastur liður í minni eldamennsku.
Í gær hringdi í mig Már Vilhjálmsson, rektor Menntaskólans við Sund, og bað mig að lesa upp úr bókinni minni á Degi íslenskrar tungu (á morgun), við hátíðlega athöfn á sal sem u.þ.b. 800 manns munu sækja. Að sjálfsögðu þekktist ég boðið. Raunar heimtaði hann að greiða mér fyrir og gekk mér erfiðlega að biðjast undan því. Svo það er útlit fyrir að ég fái í fyrsta (og síðasta?) skipti greitt fyrir ljóðaupplestur, á sama tíma og greiðslan fyrir fyrirlesturinn minn hjá VER er á leiðinni í hús.
Hvað téðan fyrirlestur snertir stendur nú til að hann birtist í fréttabréfi Vinnueftirlitsins ásamt mynd af hógværum höfundi hans. Ég á einungis eitt orð til að lýsa undrun minni, og það orð er „jahérna“. Þið sem eltuð tengilinn á fyrirlesturinn í færslu hér neðar á síðunni skiljið vænti ég undrun mína. Vek þó aftur athygli á því að ég falbýð mig til hvers kyns fyrirlestrarhalda á vægu verði. Hinn hógværi ég.