Út er komin bók

Endurómun upphafsins
„Laust fyrir miðnætti varð piltinum ljóst hvað það var sem hann heyrði, óð tunglsins. Hann þusti út til að faðma að sér ljósdropana sem seytluðu niður úr himnunum en greip í tómt og allt missti marks.
Það var á efsta degi samkvæmt Greenwich Mean Time en hann var á Íslandi, sem enn var landfræðilegum klukkutíma á eftir. Tunglið stóð aftur á móti á kosmískum tíma svo bitförin voru þá þegar orðin greinanleg, en þau sá pilturinn ekki.
Fyrst féll myrkrið á Greenwich á miðnætti, svo dreifði það úr sér til austurs. Allajafna hefði Ísland verið næst en þann dag var heimurinn öfugsnúinn. Mitt á milli alþjóðlegu dagalínunnar og Greenwich var pilturinn þannig svo lánsamur að deyja ekki fyrr en deginum eftir Ragnarök.
Og meðan heimurinn snerist upp í andhverfu sína stóð hann í tunglsljósi og glímdi við ritstíflu sem bjargað gæti heiminum – með einungis örfáar mínútur til stefnu …“

Bókin Endurómun upphafsins kom út á dögunum og verður fáanleg í helstu bókaverslunum höfuðborgarsvæðisins eftir helgi fyrir litlar 1990 krónur. Bókin er einnig væntanleg í Bókval á Akureyri, en þartil má nálgast hana á sérlegu tilboðsverði hjá höfundi. Ókeypis heimsending í boði fyrir kaupendur utan höfuðborgarsvæðisins, en nánari upplýsingar um fyrirkomulag fást hjá höfundi: arngrimurv@simnet.is.

12 thoughts on "Út er komin bók"

 1. Björn skrifar:

  Ég treysti á eiginhandaráritun og dassi af rakspíra á mitt eintak.

 2. Einar Steinn skrifar:

  Gratúlera enn og aftur. Jamm. ég vil áritað eintak líka.
  Flott brot. Þykir kápan líka falleg.

 3. Einar Steinn skrifar:

  Flott brot. Kápan þykir mér líka falleg. Ég vil líka áritun.

 4. Þakkir. Mér þykir þú deila þér víða?

 5. Anton skrifar:

  Til hamingju með bókina! Sammála athugsemdum um kápu. Hver klæddi verkið svo smekklega?

 6. Kærar þakkir, og gaman að sjá að þú ert með bloggsíðu! Brynjólfur Ólason bæði braut um og hannaði kápu.

 7. Þorkell skrifar:

  Til hamingju með kvikindið Aggi!

 8. birta svavars skrifar:

  til hamingju með kníguna!
  maður flettir henni á kringlusafninu… awlright!

 9. Sigurrós Erlingsdóttir skrifar:

  Kæri Arngrímur.
  Til hamingju með útgáfuna. Frétti að þú hefðir lesið í MS á Degi íslenskrar tungu og það gladdi mig. Treysti því að ég fái áritaða bók (þú lætur HAH taka hana þegar hún kemur heim). Gangi þér vel í útgáfubransanum.
  ps. Hafa birst dómar? Ef já, þá hvar?

 10. Ásgeir skrifar:

  Bókina er hvergi að finna í búð búðanna, úr þessu verðurðu auðvitað að bæta svo lesendur þurfi ekki að versla hana í einhverri okurbúllu niðrí bæ þar sem virðulegir háskólanemendur rekast utan í sauðsvartan almúgann þegar þeir berjast um að komast að ljóðabókaborðinu.

 11. Takk öllsömul!
  Knígunni máttu fletta á safninu, Birta, ef safnið kaupir. En þúkaupajá?
  Engir dómar enn Rósa, en þeir eru væntanlegar m.a. á Kistunni (http://kistan.is) og í Tímariti Máls og menningar. Fylgist reglulega með síðunni ykkar San Diego-mæðga, hún er reglulega skemmtileg!
  Ég fleygi í ykkur eintökum á föstudaginn, Ásgeir, svo stúdentar þurfi ekki að díla við andlitslausan skrílinn sem einskis svífst í að tæta í sig jólabækurnar. En þá verður þú líka að kaupa eintak!

 12. Þórunn skrifar:

  Innilega til hamingju með bókina Arngrímur! Ég krefst þess að komast yfir áritað eintak sem fyrst. Kápan gleður svo sannarlega augað og ég á ekki von á öðru en að innihaldið sé í stíl. Kveðja úr austrinu 🙂

Lokað er á athugasemdir.