Keppni!

Hvernig ætli almennt viðhorf til íslensks máls væri ef BA-nám í greininni yrði fært inn í aðalnámsskrá … væri hægt að ímynda sér heila þjóð íslenskufræðinga?

Annars lýsi ég hérmeð eftir klúrum, íslenskulegum myndlíkingum á formi pikköplína. Dæmi til viðmiðunar: „Hæ, ég er að rannsaka hvort stunur geti verið fónem undir vissum kringumstæðum. Viltu taka þátt?“ Ég skora sérstaklega á fulltrúa Mímis til þátttöku, þá ekki síst Anton, Ástu og Saxithorisfilii, en öllum er velkomið að spreyta sig. Ekki síst eldri íslenskujaxlar og -ínur sem luma sjálfsagt á ýmsu úr reynsluheimi fræðanna. Skilyrði er að pikköplínur tengist íslenskum fræðum.

Eitt er það sem brennur á mér eftir gærkvöldið sem hreinlega verður að koma á framfæri hér: Ef einhverjum vina minna finnst það sniðugt að hringja í mig og vera með eitthvað rugl, t.d. að þykjast vera að leita að Páli Vídalín, með gól og drykkjulæti í bakgrunni, þá er það opinber skoðun bloggara að það sé hvorki fyndið né vænlegt til vinnings ef mönnum hugnast strax í kjölfarið að bjóða mér í partí. Sér í lagi þegar ég veit hver hringir og viðkomandi treinar brandarann í tíu mínútur. Og þá kemur yfirlýsingin: Héðanaf skelli ég á. Ef viðkomandi hefur eitthvað að segja getur hann þá hringt aftur og látið eins og maður.