Keppni!

Hvernig ætli almennt viðhorf til íslensks máls væri ef BA-nám í greininni yrði fært inn í aðalnámsskrá … væri hægt að ímynda sér heila þjóð íslenskufræðinga?

Annars lýsi ég hérmeð eftir klúrum, íslenskulegum myndlíkingum á formi pikköplína. Dæmi til viðmiðunar: „Hæ, ég er að rannsaka hvort stunur geti verið fónem undir vissum kringumstæðum. Viltu taka þátt?“ Ég skora sérstaklega á fulltrúa Mímis til þátttöku, þá ekki síst Anton, Ástu og Saxithorisfilii, en öllum er velkomið að spreyta sig. Ekki síst eldri íslenskujaxlar og -ínur sem luma sjálfsagt á ýmsu úr reynsluheimi fræðanna. Skilyrði er að pikköplínur tengist íslenskum fræðum.

Eitt er það sem brennur á mér eftir gærkvöldið sem hreinlega verður að koma á framfæri hér: Ef einhverjum vina minna finnst það sniðugt að hringja í mig og vera með eitthvað rugl, t.d. að þykjast vera að leita að Páli Vídalín, með gól og drykkjulæti í bakgrunni, þá er það opinber skoðun bloggara að það sé hvorki fyndið né vænlegt til vinnings ef mönnum hugnast strax í kjölfarið að bjóða mér í partí. Sér í lagi þegar ég veit hver hringir og viðkomandi treinar brandarann í tíu mínútur. Og þá kemur yfirlýsingin: Héðanaf skelli ég á. Ef viðkomandi hefur eitthvað að segja getur hann þá hringt aftur og látið eins og maður.

20 thoughts on "Keppni!"

 1. Avatar Harpa J skrifar:

  Ég er því miður frekar andlaus í dag. En ég fylgist spennt með og vona að þú fáir margar krassandi tillögur. Væri svo ekki ráð að prófa tillögurnar og sjá hverjar gefast best?

 2. Heyrðu, það er góð hugmynd! Sú pikköplína sem vinnur keppnina að mínu hógværa mati verður notuð á Guðrúnu Þórhallsdóttur.

 3. Avatar Emil skrifar:

  Hvað með:
  „Um leið og ég sá þig hljóðritaðist nafn þitt á hjarta mitt. Mætti ég afbyggja kokhljóð þín?“

 4. Avatar Emil skrifar:

  Eða:
  „Miðmynd mín fór rakleiðis í efsta stig þegar ég heyrði þessi undurfallegu tannvaramæltu hljóð frá þér.“

 5. Ég ætla að draga í land með að línurnar þurfi að vera klúrar.

 6. Leyfi mér að bæta við:
  „Þú ert forsetningin sem stýrir falli mínu.“
  og
  „Hvað er svona sætur stuðull eins og þú að gera innan um alla þessa hala?“

 7. Avatar Gummi skrifar:

  Hvernig er þessi:
  „Eigum við að mynda saman tvívaramælt nándarhljóð?“

 8. Avatar Jón Örn skrifar:

  Það gleður mig að sjá hversu ólíklegt það er að íslenskunemum eigi eftir að takast að fjölga sér…

 9. Segir sjálfur Abraham!

 10. Avatar Á skrifar:

  „Áður en ég hitti þig var líf mitt hljóðgap.“

 11. Avatar Surmeli skrifar:

  „Beibí, hvernig líst þér á að við verðum lágmarkspör?“

 12. Avatar Surmeli skrifar:

  *par*

 13. Avatar Surmeli skrifar:

  Frekar:
  „Eiríkur Rögnvaldsson ætlar að gera rannsókn á lágmarkspörum, eigum við að taka þátt?“

 14. Avatar Einar Steinn skrifar:

  „Mér er leiðingjarnt að vera einungis stak í óeiginlegu hlutmengi. Þar eð við deilum sömu stöðu vil bjóða þér að mynda með mér sniðmengi.“
  Annars er ég alltaf mest fyrir myndlíkingarnar í Bósa sögu og Herrauðs:
  „Herða vil ég jarl minn í smiðju þinni“ og „Brynna vil ég fola mínum í ölkeldu þinni“.
  Verður þá hugsað til lagsins Sigtryggur vann með Þursaflokknum: „Sigtryggur í svefni vær/ sendir frá sér pústur/ hjjá honum liggur haukleg mær/ og hangir losta kústur.

 15. Ég verð að hryggja þig með því, Einar, að innleggið fellur ekki undir skilgreiningu.

 16. Þessi barst í tölvupósti:
  „Ég hef aldrei séð jafn baklæga gerð og þig. Þú hlýtur bara að vera hrein
  mey.“

 17. Avatar Dagur skrifar:

  Ja, nú fer mér að vera flökurt. Tek undir með Jóni Erni með fjölgunina.

 18. Avatar Alliat skrifar:

  „Hversu sorðin verður þú ef ég býð þér heim með mér?“
  -Já, já, ég veit, ég veit… ógilt innlegg… en ég varð að setja eitthvað hingað. 😉

 19. Arngrímur Arngrímur skrifar:

  „Viltu sjá lengdarregluna í praxís?“

 20. Bíddu bara Dagur, þartil þú ert kominn í læknadeildina. Líklega er hörgull á sóðalegri bröndurum.
  Annars hef ég tekið eftir að Kristján Árnason tekur víbrator sem dæmi um sýndarsamsetningu í Íslenskri tungu. Ég held að pikköplínukeppninni hafi óbeint verið rústað …

Lokað er á athugasemdir.