Leiðrétting

Einhverjir munu hafa skilið síðustu færslu sem svo að ég væri að hnýta í Einar Má (!), svo greinilega er það ofsögum sagt að ég geti tjáð mig á skiljanlegri íslensku. Síðasta færsla segir, í sem fæstum orðum, að það sé kjaftæði að list eða fræði geti versnað af þau komast í tísku. Dæmi um fullyrðingu: Ég las Draumalandið áður en það varð geðveikt kúl og ég var bara vá mar! Núna er maður bara, þúst, kommon! Hvadda lesidda mar?!
Nietzsche er ofnotaður og rangtúlkaður sem nasismi og andfeminismi o.s.frv. Ergó: Menn skulu ekki vitna í Nietzsche? Ef eitthvað er held ég að þveröfugrar nálgunar sé þörf, m.ö.o. sé ég engar forsendur fyrir þessari afleiðslu. Ef til er Nietzsche-klisja þá er það rangtúlkun á hugmyndum hans. Rangtúlkanir þarfnast leiðréttingar, ekki afneitunar.
Auk þess finnst mér hálfgerð klisja að sjá klisjur í hverju horni. Það er nokkuð sem ég tengi við tískuvitund níundubekkinga og Huga.is.

2 thoughts on “Leiðrétting”

  1. Kjaftæði er mjög gott yfir það að eitthvað versni við það að ná vinsældum. Ekki versnuðu hljómsveitir eins og Atomic Kitten, Pink Floyd, Scooter og Baggalútur þegar þær meikuðu það.
    Ótengt þessu vil ég benda þér á að síðan þín fer öll í döðlur í Opera sem gerir mér erfitt að lesa hana enda er skelfileg klisja að nota Internet Explorer eða Firefox.

  2. Ég hætti að nota Opera á sínum tíma því það snerist í sífellu gegn mér, tók þá upp á að nota Netscape, sem einnig snerist gegn mér áður yfir lauk. Hef notað Firefox síðan.
    Það er eins og mig minni að Opera noti aðra kóðun en aðrir vafrar, nokkuð sem átti að verða framtíðin í netkóðun. Enn örlar ekki á þeirri framtíð í almennri vefsíðugerð, og ef ég tæki upp á að krukka í þessari síðu til að gera hana Operavæna myndi ég áreiðanlega gjöreyðileggja hana til skoðunar í öðrum vöfrum.
    Meðan ég skrifaði þetta sótti ég mér Opera. Er ekki frá því að forritið hafi splundrast í öreindir við að reyna að lesa síðuna mína.
    En já, dæmin sem þú tekur. Sumt gæti einfaldlega aldrei versnað, nokkurn tíma. Það sem gæti versnað hefur altént ekki gert það vegna þess að það varð vinsælt, hvort sem það hefur versnað eður ei (sem hlýtur ávallt að vera smekksatriði).

Lokað er á athugasemdir.