Nietzsche-klisjan

Jæa, hér hefur ekkert verið sagt af viti í alltof langan tíma. Bæti ég úr því hérmeð ellegar verð að gjalti sjálfum mér til ævarandi sproksetningar í sérhverjum afkima mannfélagsins. Sjáum hvort gerist.

Friedrich W. NietzscheÞað er fáránlega klisjukennt, þreytt og fíflalegt að vitna í Nietzsche, gæti maður haldið, kannski ekki síst eftir að Englar alheimsins varð skyldulesning í grunnskólum og hvaða dópisti sem er af ákveðinni kynslóð og eftir varð nógu menntaður til að geta vitnað í Zaraþústru og lýst því yfir að Guð sé dauður samkvæmt aldargamalli speki.

Samt er Nietzsche alltaf jafn töff. Hvernig getur þá verið klisjukennt og þreytt að vitna í hann? Af því það er það einfaldlega ekki. Hin einasta klisja sem til er, það er trúin á klisjur, óbilandi trú á ófrumleik og ævarandi löngun meðalmannsins til að vera nákvæmlega eitthvað annað en hann er: Meðalmaður. Vegna þess að allir gera eitthvað, þá er það ömurlegt. Blindandi hentu pílu af annarri hæð í Kringlunni og þú hittir einhvern sem er þessarar skoðunar.

Einar Már GuðmundssonSömu manneskju gæti þótt eðlilegt að breyta um stíl þegar allir eru orðnir eins og hún. Sama manneskja gæti sagt: Rammstein voru geðveikir þartil allir fóru að hlusta á þá. Hún myndi bara orða það sér í vil, í lymskulegri tilraun til að leyna því hversu vitlaust þetta er. Tónlist verður ekki léleg þótt allir hlusti á hana. Jörðin verður ekki flöt af því allir halda að hún sé hnöttur.

Að sama skapi er Nietzsche ekkert síður gjaldgengur þótt margir geti vitnað í hann. Nietzsche-klisjan er ekki sú að annarhver maður sé öskrandi á torgum úti: GUÐ ER DAUÐUR! VIÐ DRÁPUM HANN!, heldur sú að fólk hefur yfirhöfuð enga andskotans hugmynd um hvað þetta merkir. Enda hafa færri Íslendingar lesið Zaraþústru en Engla alheimsins. Og hvernig gengisfellir það Nietzsche? Af hverju gengisfellir það ekki Einar Má? Af því í grunninn er þetta vitleysa? Annað eins gæti nú verið.

11 thoughts on “Nietzsche-klisjan”

  1. Þessi setning var klisja löngu áður en Einar Már lét sögupersónu sína cíta í hann Nitsjé.

  2. Ef við getum gengið útfrá því að Nietzsche sé klisja hljóta allir þekktari fræðimenn að vera klisjur, þ.á.m. Stephen Hawking og Big bang kenningin; hundar Pavlovs og köttur Schrödingers.
    Derrida: Ekkert er utan texta. Klisja?

  3. Mér hefur þótt sálfræði kliskjukennd, kannski aðallega í Freud-vísunum, sökum þess að það er svo mörgu tekið sem gefnu, og sömu stefin síendurtekin. Það er nú kannski í anda Freuds sjálfs; þó að hann væri í ýmsu glúrinn voru kenningar hans fremur byggðar á tilgátum en nokkru sem ég gæti kallað vísindalegar aðferðir.
    Feminísk fræði finnst mér eins eiga til að grípa hugmyndir og hugtök Freuds hrá og veltur þar á ýmsu hversu þær hafa verið stúderaði. Manni finnst oft að mætti beita gagnrýnara hugarfari í þeim efnum.

  4. Sem betur fer skjátlast þér um sálfræðina. Menn eru hreint ekki að rúnka sér yfir Freud á þeim bænum. Menn gefa sér heldur ekkert, sálfræði er empirísk vísindagrein á Íslandi, sem byggist á raunprófun og sönnunum.
    Ef eitthvað er hefur sálfræðin helst verið gagnrýnd fyrir að vera of empirísk, að taka ekki tillit til atriða sem erfitt eða ómögulegt er að raunprófa.

  5. Gott ef það er svo, en þetta hefur verið mín impression af greinum sem ég hef verið að lesa. Þetta er til dæmis yfirþyrmandi í grein Mary Ann Doane; Kvikmynd og grímuleikur: Kvenáhorfandinn túlkaður í bókinni áfangar í kvikmyndafræðum. Sýnist Laura Mulvey svo vera á sömu nótum í greininni Sjónræn nautn og frásagnarkvikmyndin, í sömu bók.
    Það bætir svo ekki úr skák að mikið af greinunum í þessari bók eru herfilega þýddar, en það er nú önnur saga.
    Ég stend enn við það að ég get ekki kallað aðferðir Freuds vísindalegar, og vísanir í kenningar hans geta því tæpast talist vísindaleg rök nema eitthvað frekara komi til.

  6. Sko, nú máttu ekki spyrða saman bókmenntafræði og sálfræði. Kenningar Freuds eru mikið notaðar í hvers konar greiningu á texta og kvikmyndum. Það tengist sálfræði ekki á nokkurn skapaðan hátt.
    Og ekki fyrir nokkra muni slá höndinni við sálgreiningu á texta eða leikverki, það getur bæði verið gagnleg greining og skemmtileg, enda þótt sálgreining í raunveruleikanum sé rakin vitleysa frá upphafi til enda.

  7. Jæja, þetta er e-ð svona feminísk-freudískar kvimyndafræðigreinar sem ég er sérstakelga að vísa til.
    Hvað seinni þáttin varðar, geri ég það alls ekki, margt áhugavert og gagnlegt vissulega, en mér finnst bara vanta að það sé eitthvað konkret til að styðja við yfirlýsingarnar, sem í þeim tilfellum sem ég ræði um er gjaran haldið fram eins og heilögum sannleik, enn fremur eitthvað talið „leiða af öðru“ án þess að orsakasamhengi sé skýrt nánar.

  8. Án þess að hafa lesið téðar greinar get ég ekki ímyndað mér annað en þeim sé ætlað að vera túlkanir fremur en niðurstaða, líkt og í skyldum greinum. Ef ekki væri hægt að gera ráð fyrir slíkum fyrirvara væri það til dæmis staðreynd að Völuspá fjalli um sigur karlveldisins, samkvæmt mælikvarðanum Kress. En það er aðeins eitt sjónarmið í óendanlegri umræðu. Það er sem betur fer ekki hægt að fulltúlka.

  9. Sjónarmið, já, en leiðinlegt þegar ekki koma skýrari rök, þá á maður erfiðara með að geta tekið undir orð greinahöfundar.
    Seg mér annars, þar eð ég er farinn að ryðga: Getur dulvitund mótast félagslega? Ég hélt að það væri bara meðvitundin sem gæti það, en skv. greininni sem ég er að lesa virðist svo vera, og ég skil það ekki alveg.

  10. Ef ég man Freud rétt eru það félagslegar aðstæður sem „móta“ dulvitundina við viss skilyrði, t.d. maður sem orðið hefur fyrir áfalli í æsku og bælir það niður. Þá felst sálgreiningin í að ná því aftur upp á yfirborðið. Veit svosum ekki hvort það hjálpi nokkuð við viðfangsefnið þitt.
    Ef þú átt við að hún sé í sífellri félagslegri mótun leyfi ég mér að efast um það, án þess raunar að hafa kynnt mér til hlítar kenningar nýfreudista.

Lokað er á athugasemdir.