Var ég einhverju sinni búinn að kvarta undan kjánaskap handritshöfunda Disneymyndarinnar Atlantis? Í henni kemur fyrir fornmálafræðingurinn Milo og félagar hans sem komast við illan rammleik til sokknu borgarinnar Atlantis, af hvaða tilefni man ég ekki, a.m.k. ekki til að rannsaka málfræði. Eigi fyrr hafa þeir gereyðilagt kafbát sinn en þeim er haldið í gíslingu af sprundi með spjót, kjaftar á henni hver tuska á óskiljanlegu máli til að bæta gráu ofan á svart.
Nema skyndilega rennur upp fyrir Milo að þetta mál sé hvorki meira né minna en frumtunga indóevópskra mála. Og með geipimikla málfræðikunnáttu sína að vopni nær hann að tjá sig við sprundið á hennar eigin ylhýra máli sem ekkert hefur þróast á yfir tvöþúsund árum. En hvað um það.
Allt bliknar þetta í samanburði við þá vísindasögulegu sprengju sem Milo varpar fram í kjölfarið og fengið gæti málfræðinga heimsins til að fuðra upp innvortis, ælandi blóði með miklum gráti og gnístran tanna. Hann tekur nefnilega til við að útskýra fyrir samferðafólki sínu hvernig á því standi að hann geti tjáð sig við sprundið, en ályktar sem svo að hún geti þá skilið öll síðari indóevrópsk mál sömuleiðis! Og mælir þá hin fleygu orð: Parle vous français? Svarar sprungið: Oui, monsieur!
Fyrir utan meistaralegan skilning þeirra Disneymanna á eðli sögulegra málvísinda, og bara línulegrar atburðarásar yfirleitt (sbr. af hverju íslenskufræðingar væru betur til þess fallnir að skilja landnámsmenn en öfugt (þótt þeir gætu það alls ekki!), sbr. sömu forsendu önnur skilyrði: Hvers vegna fólk sem var uppi á tímum Platons hefði ekki verið samræðuhæft um Kastljós gærkvöldsins), þá má gera ráð fyrir að ævintýrið skipti hér máli ofar öðru. En einu gleymdu þeir ef það er tilfellið: Ef sprundið skilur frönsku, og getur aðgreint hana frá sínu eigin máli, hvernig stendur þá á því að hún skilur ekki ensku?