Hvað gerir sá sem nennir ekki að fara að sofa? Nú, hann kennir sjálfum sér að lesa heil-, hálf-, fjórðu-, áttundu- og sextánduhluta nótnatakta. Já, það gerir hann.
En lætur ekki þar við sitja. Onei, hann kennir sjálfum sér einnig að spila á píanó – án kennsluefnis. Tveir dúrar, A og G, auk Dm. Svo æfir hann sig í að semja slaufur milli hljómanna. Því sá sem nennir ekki að fara að sofa, hann nennir fjandakornið ekki að læra skala. Nei, hann er upptekinn við að útfæra lagið sem hann samdi á gítar fyrir píanó, enda samið fyrir píanó, nema hvað.
Á þessari stundu er hann samt farinn að hafa smá áhyggjur af sjálfum sér …
Farðu að sofa.
Jiminn.
Þetta er allt að gerast. Gegndarlausar æfingar ásamt heilbrigðum skammti af tónfræði ættu að gera hæfan píanóspilandi Arngrím um það leyti sem hann missir píanóið aftur í kaldar klær leigusalans.