Ýmiss konar tilbeiðsla

Sú mikla bifreið föður míns er nýkomin úr viðgerð en er alveg jafn biluð og fyrri daginn. Líklega var ég bara heppinn að komast ferða minna í gær, en í dag var ég ekki svo heppinn og mætti alltof seint í goðafræðina.

Goðafræðin er annars áhugaverðasti kúrsinn, þótt ef til vill sé hann lúmskt erfiður. En það kemur allt í ljós. Annars konar goðafræði var í fullum gangi á kaffistofunni í kjallaranum. Þar óðu guðfræðinemar uppi og hempuklæddir menn ræddust við á ítölsku. Ég grínast ekki. Hvers vegna guðfræðiskor vill endilega starfrækja kapellu í Háskólanum mun ég aldrei skilja. Ég ætti kannski að krefjast þess fyrir hönd íslenskuskors að við fáum langeld og fórnaraltari í kjallara Árnagarðs, okkar eigið eldhús og kaffistofu. Bókmenntafræðin gæti þá fengið tilbeiðsluherbergi með Derridagínu til að rúnka. Herbergið gæti heitið „Póstmódernisminn“ og menn gætu þá dundað sér við að finna leiðina út aftur. Nei, þetta er fíflaleg umræða.

Alls ótengt heilagleikanum í kjallara Aðalbyggingarinnar þætti mér ágætt ef ég þyrfti aldrei að sækja tíma þangað aftur. Ef hægt væri að koma því við að ég sæti alla mína kúrsa í Árnagarði eftirleiðis yrði ég sérdeilis kátur. Það varðar þá helst óþægilegan strúktúr byggingarinnar, sem gerir það að verkum að það verður kvöð að sækja kaffið sitt. Kaffistofur beggja bygginga mynda raunar sams konar flöskuháls á álagstímum, en þá er líka munur að mæta skemmtilegu fólki eða guðfræðinemum. Jón og síra Jón, á þessu er munur. Nema veri hann Magnússon, þá er fanatíkin sú sama.

2 thoughts on “Ýmiss konar tilbeiðsla”

  1. Ég hef farið í messu þarna og það er fínt.
    Mér finnst þetta blogg afskaplega kjánalegt – þú fyrirgefur.

  2. Ég fyrirgef. Mér finnst kjánalegt að borga kapellu undir guðfræðideild. En þú áttar þig vonandi á að þetta er létt grín, mér er ekkert sérlega uppsigað við guðfræði.

Lokað er á athugasemdir.