Fallegur dagur

Gott er á góðum degi að taka rúnt niður á bókasafn og krækja sér í einhver rit til að glugga í með tvöföldum espresso á einhverju útikaffihúsinu (enda dugir reykingamönnum skammt að sitja inni). Á svona degi er líka viðbúið að mörgum kunnuglegum andlitum bregði fyrir í bænum og sú óviðfelldna hundraðogeinntilfinning lætur á sér kræla að miðbærinn sé í raun framlenging á bakgarðinum heima (fyrir sex árum sá ég Geir Ólafs rölta um bæinn að morgni til á slopp og inniskóm, leiki það enginn eftir).

Við tjörnina létu mávarnir loftárásirnar dynja á höndunum sem fóðruðu þá og þegar ég gekk Bárugötuna heim á leið hallaði sér útigangsmannslegur náungi með trosnaða bók yfir garðvegg og leiðbeindi ábúanda hvernig ætti að vitna í hann sjálfan í heimildaskrá, meðan hinn síðarnefndi rakaði garðinn sinn.

Í lok mánaðar er útlit fyrir að Vesturbæjardraumurinn sé úti um sinn en við taki annarskonar tímabil þarsem ég verð þó líklega með aðstöðu í bænum undir hverskyns hringlumhrangl. Þá er viðbúið að ég muni eyða langtum meiri tíma en eðlilegt gæti talist í bænum til að kreista hið mesta úr blóðmjólkuðum steininum, enda þótt því fari fjarri að miðbærinn geti alltaf talist eitthvað sérlega kræsilegur. Það er fyrst og fremst á dögum sem þessum, og haustin í Vesturbænum geta verið ansi köld þegar blæs eftir endilangri Hringbrautinni.

En við sjáum hvað setur.

3 thoughts on "Fallegur dagur"

  1. Auðun skrifar:

    Ég sá mömmu hans hún var bekkjasystir mömmu í grunnskóla.Frábært að kíkja á bókasafnið.Eitt rosalega fyndið troddi hann bókinni í bakpokann.Bíddu ertu að fara burt úr vesturbænum æjj ég græt. Núna er mávar stórhættulegir hef ég hert þeir borði aðra fugla eða eitthvað svoleðis.

  2. Nína skrifar:

    Við sjáum hvað klósettsetur kauði.

  3. Lárus skrifar:

    Helvítis frjálshyggjumaður!

Skildu eftir svar við Auðun Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt.