Aldamótabíllinn Dísa

Nokkurnveginn svona lítur hún út, Aldamótabíllinn Dísa, sem nú sinnir því hlutverki að ferja mig yfir dauðafljót Íslands, Garðabæinn, á leið minni til vinnu. En karlmenn eiga kvenkyns bíla, svo eðli málsins samkvæmt gat bifreiðin ekki heitið Karon.

Númeraplatan er SI x, þarsem SI stendur fyrir Sovét Ísland og talan fyrir þann fjölda öreiga sem þarf til að bylta íslensku ríkisstjórninni. Eða svo tel ég mér trú um og hef ég það sem sannara reynist þegar byltingin er gengin um garð. Bifreiðin er þannig hvorki karl né krati.

Fyrst ég hef nú kynnt nýjustu viðbótina við fátæklegar eigur mínar get ég sagt frá því sem gerðist í gær. Sem endranær var ég við störf á bókasafninu þegar ég af einhverjum orsökum þurfti skyndilega að kasta upp. Vissra ástæðna vegna valdi ég mér salernið til þess arna en í flýti mínum gleymdi ég að læsa hurðinni. Í þann mund sem spýjan gekk uppeftir vélindanu í átt til föðurhúsa slóst hurðin allharkalega í ennið á mér. Hefði þetta verið American Pie 7 hefði spýjan sjálfsagt frussast uppúr mér yfir viðkomandi sem ég steinrotaðist samstundis í slómósjon. Ekkert í líkingunni gerðist; ég ældi ekki, rotaðist þaðan af síður, og viðkomandi forðaði sér áður en ég gat auðkennt hver væri á ferðinni.

Slík eru ævintýri bókavarða.

7 thoughts on “Aldamótabíllinn Dísa”

  1. Hahaha góð pæling að slamma einhvern ókunnugan mann á ennið með hurð og hlaupa síðan í burtu. Snilldar „hit and run“. Til hamingju með að hafa orðið fyrir þessu.
    Með kveðju yfir öll sveitarfélögin.

  2. Hamingjuóskir þáðar með þökkum, ánægjulegt einnig að gubbusagan hafi hitt í mark. Varðandi frönskuna, Hjördís, þá er dáldið skemmtilegt að bensínmælirinn segir ekki E fyrir empty heldur R. Gæti það staðið fyrir Rien?
    Þórdís, ef til vill dugir ekki einu sinni jeppi til að klöngrast gegnum Garðabæinn. Eða eins og stendur í upphafsorðum sögu bæjarfélagsins: „Sagði þá Búkolla við strák: Taktu hár úr hala mínum og leggðu hann á jörðinu, svo til verði þvílík hallærisdæld að enginn komist yfir nema sjallinn ljúgandi.“

Skildu eftir svar við baun Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *