Stiklað á ekki svo stóru í hinu smáa

Fyrir helgi sá ég fyrstu norðurljós vetrarins slæðast fyrir fullt tungl yfir höfninni í Hafnarfirði, þótt þau vörðu nú heldur skammt. Í kuldanum ákvað ég að taka örstuttan göngutúr um smábátahöfnina og komst að raun um að ekki einungis eiga Hafnfirðingar ögn smekklegri tilbrigði við Litla kaffivagninn, heldur er þar einnig að finna sjálfsafgreiðsludælu frá Atlantsolíu – fyrir smábáta.

Annars eyði ég tíma mínum að miklu leyti á Google Earth síðan í gær og líklega frameftir viku. Fann húsið mitt á Via Antonio Emmanueli frá því fyrir sautján árum, Hundaskítstúnið, Sidi’s, hverfisbarinn og hús Ricardos Anselmi við túnið þar sem við lékum okkur. Áhugasömum er bent á að ég bjó til mynd af hverfinu hér.

Get ekki sagt það taki langan tíma að leita uppi fortíð sína með þessum hætti, þó virðist Ricardo ekki búa þar lengur samkvæmt símaskrá Piacenza, og ekkert ættmenna hans heldur. Fyrst það sama er uppi á teningnum hjá Simone Bulla geri ég ráð fyrir að þeir séu ekki skráðir fyrir eigin símanúmerum. Hvernig er það, þarf maður ekki bara að fara að drífa sig heim og hafa uppi á þessu liði?