Þeir sem þekkja mig vita að ég er allajafna afar hófstilltur maður (nema rétt meðan ég er ölvaður). Hins vegar eru nokkur atriði sem fara svo óheyrilega í taugarnar á mér að ég fæ ekki annað af mér en leiðrétta þau.
1. Málfræðingar eru ekki langskólagengnir til að leiðrétta allt sem þú segir. Þá er ekki þar með sagt að þeir geti ekki haft skoðanir á því.
2. Líkt og öll önnur dýr sem á annað borð hafa heila þarf maðurinn á öllu sínu heilabúi að halda; eins gallaðar skepnur og við erum verður seint sagt að rottur hafi það framyfir okkur. Það er ekki til neinn stór, ónotaður hluti af heilanum sem eitt sinn gerði okkur kleift að beita hugsanaflutningi.
3. Fullt tungl hefur engin áhrif á fólk önnur en ímynduð. Þó að sólin lýsi það misvel upp þýðir það ekki að eðliseiginleikar tunglsins breytist við það, auk þess er tunglið alveg jafn nálægt jörðinni samt! Ef tunglið væri slíkur frumkraftur í sjálfu sér hefðu tunglfararnir orðið vitfirrtir löngu áður en þeir lentu.
4. Coreolisáhrifin eru ekki nógu sterk til að hafa áhrif á snúning vatnsins í vaskinum þínum. Þau stýra veðrabrigðum, vindum, öðru ekki. Á sama hátt stýrir aðdráttarafl tunglsins ekki „sjávarföllum líkama þíns“ frekar en sólarljós á yfirborði þess stýrir geðsveiflum.
5. Þú ert ekki tvítyngdur þótt þú kunnir annað tungumál.
6. Feng Shui er ekkert meira en innanhússarkitektúr. Það byggir ekki á mörgþúsund ára gömlum lögmálum um vellíðan og andlega spekt.
7. Ínúítar eiga ekki hlutfallslega fleiri orð yfir snjó en aðrir þjóðflokkar. Þeir væru heldur ekkert andlegri þótt svo væri.
8. Grænmetisætur eru ekkert náttúrlegri en aðrir; maðurinn er alæta samkvæmt skilgreiningu. Að gera hundinn þinn að grænmetisætu er svo andskotakornið ekkert annað en viðurstyggilegar og refsiverðar pyntingar.
Amen.
Að gera köttinn sinn að grænmetisætu er að drepa hann á frekar ógeðfelldan hátt.
Mig minnir að þeir verði að fá yfir 95% af sinni fæðu úr dýraríkinu. Kannski var það meira; það er allavega ekki minna.
Ertu nokkuð pirraður Arngrímur minn, einsog þú ert nú dagsfarsprúður maður? Viss um að þetta sé nú staðreynd með Feng Shuið, jæja…
Hreint ekkert pirraður, en eðlis færslunnar vegna þurfti stíllinn að vera það. Sjálfur er ég á sólskinsskónum í alveg hreint glimrandi skapi! 🙂
Margir talsmenn feng shui halda því fram að arkitektúrinn geti haft áhrif á fjármál og sálarlíf. Það er vægast sagt furðuleg krafa. Að því ógleymdu að það er ekki til nein stöðluð aðferðafræði innan greinarinnar, þar af leiðandi getur hún hvorki talist fræðigrein né vísindi.
Hvað segir þú – ferðu ekki út á fullu tungli alveg dýrvitlaus og froðufellandi ?????
…Og það er ekki hægt að sleikja á sér olnbogann!!
Ertu alveg viss um að þetta sé rétt um inúítana? Eiga þeir ekki til fleiri orð yfir snjó heldur en aðrir?
Mér þykja þetta tíðindi. Ég þykist vita að við Íslendingar eigum fleiri orð yfir snjó heldur en til dæmis Spánverjar (ég kann spænsku þótt ég sé ekki tvítyngd). Á spænsku heitir snjónn bara nieve. Punktur. En við höfum skafrenning, hundslappadrífu, slabb, hjarn og allan andskotann.
En gott veður hér heitir bara gott veður.
Sammála öðru sem þú segir. Það á líka auðvitað ekki að gera dýrin sín að grænmetisætum. En það er sko ekkert að því að gera sjálfan sig að grænmetisætu.
Það er vitað að Ínúítar eiga ekki fleiri orð yfir snjó en gengur og gerist, upphafsmaður þeirrar hugmyndar er Whorf, sem minnst er á í færslunni hér á undan. Hann semsé laug þessu til að styðja kenningu sína betur (ekki að það hafi virkað). Enska, þrátt fyrir viðtekinn misskilning, á sér líka hér um bil jafnmörg orð og íslenska yfir snjó, ef ekki hreinlega fleiri. Nú veit ég ekki um spænsku.
Hef ekkert á móti grænmetisætum, aðeins móralíseringum. Í Finnlandi sat ég undir ámæli danskrar grænmetisætu fyrir að borða hreindýrakjöt á veitingastað, með þeim orðum að litla sæta dýrið væri hoppandi og leikandi sér útifyrir og það eina sem ég þyrfti að gera væri að skjóta það. Fannst það svona fulllangt gengið.
Varst það þú sem ást Rúdolf????
Við skulum orða það þannig að nef hans hafi ekki verið hálft eins rautt áður en leiðir okkar lágu saman.
Hehe. 🙂
Hvernig í fjáranum á maður að geta farið til Finnlands án þess að borða hrendýrakjöt, þegar það er svona helvíti gott? Á matstað í Jyväskylä (minnir að hann hafi heitið Memphis) bragðaði ég ljúffengasta hreindýrakjöt sem ég hef á æfi minni smakkað og var það jafnframt einhver besta máltíð ferðarinnar.
Sami bær, sami staður, sama hreindýr. Flísað niður í gúllas með kartöflum og grænmeti. Eina sem ég þurfti að gera var að skjóta það.
Ég hef aldrei drepið dýr á æfi minni, fyrir utan uþb 20 fiska.
Hvað sagði ekki Nirvana í Something in the Way? „It’s ok to eat fish, ’cause they don’t have any feelings“ 😉
Mæl þú manna heilastur, Vídalín. Ef allir vissu það sem þú skrifaðir í þessari bloggfærslu, þá væri aðeins skemmtilegra að lifa.
Þetta með snjóinn… Það gefur auga leið að það eru fleiri orð yfir snjó í grænlensku og íslensku en t.d. yoruba, enda býr fólk ekki til orð yfir eitthvað sem það veit ekki að er til. Málið með snjóinn og Whorf og allt það er að Whorf hélt því fram að eðli tungumálsins mótaði hugsunarhátt þeirra sem það tala, og tók einmitt dæmi annars vegar af tíð sagna í hópí og snjóorðum grænlendinga. Notkun á tíma í sögnum í hópí mótaði skv. Whorf viðhorf hópí-indjána til tímans (að þeir litu á tímann sem hring fremur en línu) og mörg orð inúíta yfir snjó mótaði viðhorf þeirra til umhverfisins. Andstæðingar Whorf (t.d. Pinker og Chomsky) halda því hins vegar fram að tungumálið sé alveg óháð hugsuninni. Það að inúítar eigi mörg orð yfir snjó helgast einfaldlega af nauðsyn, snjór er mikilvægur umhverfisþáttur sem þarf að vera hægt að lýsa af nokkurri nákvæmni. Að öðru leyti hafi það ekki áhrif á hugsunarhátt þeirra. (Þetta var besserviss dagsins.)
Whorf var svo mikill vitleysingur, hann komst að þessari niðurstöðu með Hópí-indíána eftir að hafa talað við einn náunga af Hópí-ættum sem bjó í New York. Hann hélt því beinlínis fram að indíánarnir skynjuðu tíma öððruvísi af því þeir ættu ekki formdeild fyrir tíma. Það var rangt, þeir eiga tvær, rétt eins og við (ég hafna aukatíðum í íslensku).
Þótt þjóðir eigi ekki endilega orð yfir snjó þýðir það ekki að þær gætu ekki útskýrt fyrirbærið á jafn fjölbreytilegan hátt og aðrar, hvort sem það væru himnaflyksur, guðatár eða eitthvað annað. Það að það sé ekki munur milli Ínúíta og Bandaríkjamanna hvað þetta varðar finnst mér gefa því auga leið.
Mér finnst samt ýmislegt til í þessu.
Íslendingar af aldamótakynslóðinni notuðu nýyrði meira en nokkur önnur kynslóð sem hefur byggt þetta land. Mér finnst ég hafa tekið eftir að Íslendingar almennt og aldamótakynslóðin alveg sérstaklega telja að tungumálið sé sjálfskýranlegt kerfi þar sem öll merking er dregin af merkingum orða, hverra merkingu má ávallt draga af samsetningu eða uppruna.
Já, þetta er nokkuð íslenskt sjónarmið. En ég get ekki lýst mig sammála því að tungumálið skýri sig sjálft, og ég tel að tungumálið sé flóknara fyrirbæri en fólk almennt telur.
En þetta eru náttúrlega dáldið funksjónalískar pælingar, hvort fólk myndi fleiri orð yfir snjó af því það búi við svo mikinn snjó. Það er ekki viðfangsefni generatívrar málfræði nema síður sé. Það sem hér átti að sýna var að Ínúítar eiga ekki fleiri orð yfir snjó en Íslendingar, Bandaríkjamenn, Bretar eða Ástralir, af hvaða ástæðum sem það kann að vera.
Hvað með þjóð sem hefur ekki í orðaforða sínum „Ég nenni ekki“ … er hún vinnusamari en aðrar þjóðir?
Ég er mjög andsnúinn þeirri hugmynd að tungumálið skýri sig sjálft. Engu að síður er hún mjög rík í þessari þjóð og ríkari hér en víða annars staðar. Íslendingar virðast sumir hverjir telja sig tala formlega rökrænt tungumál í líkingu við Lojban, þegar í rauninni þeir eru múlbundnir í prókrústesarrúmi orðfæsta evrópumálsins þar sem sérhvert orð virðist hafa fjölmargar og oft óskyldar eða jafnvel andstæðar merkingar.
Mjög góður punktur með vinnusemina. Nær alveg kjarnanum í því sem ég á við.
Ég er reyndar á því að tungumál séu meira eða minna byggð á misskilningi. En ég vinn líka við þýðingar, kannski er ég bara bitur.
Haha, það er sjónarmið 🙂
Hvað sagði Oscar Wilde?
„Language was given to man so that he could hide is thoughts.“?
Eitthvað svoleiðis.
Og það er útskýring á því af hverju ég lagði ekki þýðingar fyrir mig. Ég held að Gummi sé að fatta það.
Þetta „is“ á að vera „his“. I don’t drop my aitches, so please fix, Mr Vidalin.
Annars má bæta því við að Feng Shui er alls ekkert innanhússarkitektúr. Feng shui byggir á kínverskum kenningum og stjörnuspeki, en í arkitektúr eru mjög strangar, viðurkenndar reglur um vinnubrögð þó svo að niðurstöður verði misjafnar eftir hverjum og einum.
Feng Shui er kannski í mesta lagi innanhúss“hönnun“ eða „hefð“.
Réttilega athugað.