Andlega feitlaginn

Án þess ég sé tiltakanlega feitur er ég orðinn meistari í að rífa fötin mín í strimla við ekki merkilegri íþróttaiðkun en að hagræða lestrarstellingunni.

Síðasta vor klæddi ég mig í peysu utan yfir skyrtu og reif saum upp eftir henni endilangri. Þegar ég fór aftur úr peysunni reif ég svo aðra ermi skyrtunnar. Er svo nískur að ég hef ætlað að fá einhvern til að bæta skyrtuna síðan.

Í gærkvöldi losaði ég um hnapp á annarri skyrtu. Hef ekki séð hann síðan. Svo rétt áðan heyrðist dularfullt hljóð undan peysunni minni þegar ég settist upp og ég þori ekki að kanna hverju þessi sama skyrta kann að hafa tekið upp á þarna undir.

Rétt eins og hinir syndlausu sjást ekki í IKEA hefnist manni líklega fyrir að versla við Dressmann. Þá má einu gilda hvernig útsöluhyski á borð við sjálfan mig er vaxið. Við erum öll andlega feitlagin eftir sem áður.

Fyrstur

Aldrei fór það ekki svo að mér tækist að vakna klukkan sjö eftir fjögurra tíma svefn, vera á undan umferðinni í skólann og ná að mæta fyrstur allra í fyrsta tíma eftir viðkomu á kaffistofunni í Odda. Þetta gat ég.

Minnir á gömlu góðu dagana þegar ég reykti einn og hálfan pakka af sígarettum á dag ofan í sjöþúsund kaffibolla (leitið að bloggarafugl) og gleymdi að sofa svo dægrum skipti. Með öðrum orðum þau ár sem ég var duglegur í námi. Hve langt mér finnst síðan.