Andlega feitlaginn

Án þess ég sé tiltakanlega feitur er ég orðinn meistari í að rífa fötin mín í strimla við ekki merkilegri íþróttaiðkun en að hagræða lestrarstellingunni.

Síðasta vor klæddi ég mig í peysu utan yfir skyrtu og reif saum upp eftir henni endilangri. Þegar ég fór aftur úr peysunni reif ég svo aðra ermi skyrtunnar. Er svo nískur að ég hef ætlað að fá einhvern til að bæta skyrtuna síðan.

Í gærkvöldi losaði ég um hnapp á annarri skyrtu. Hef ekki séð hann síðan. Svo rétt áðan heyrðist dularfullt hljóð undan peysunni minni þegar ég settist upp og ég þori ekki að kanna hverju þessi sama skyrta kann að hafa tekið upp á þarna undir.

Rétt eins og hinir syndlausu sjást ekki í IKEA hefnist manni líklega fyrir að versla við Dressmann. Þá má einu gilda hvernig útsöluhyski á borð við sjálfan mig er vaxið. Við erum öll andlega feitlagin eftir sem áður.

7 thoughts on "Andlega feitlaginn"

 1. Silja skrifar:

  Hey já,á ég ekki að bæta skyrtuna fyrir þig? Þú minntist einhvern tímann á það við mig en síðan ekki söguna meir.

 2. Silja skrifar:

  Já svo er þetta ekki fituvandamál,þú ert bara svo massaður,upphandleggsvöðvarnir brjótast í gegnum fötin.

 3. Einn afmælisgesta minna hafði nú orð á almennri helköttun minni, en ég trúði honum ekki þá. Á hinn bóginn virðist sífellt fjölga í aðdáendaklúbbnum þannig að eitthvað hafið þið til ykkar máls.

 4. Erla skrifar:

  Þú ert fyndinn. Á ég ekki að lána þér nál og tvinna?

 5. Jú, takk, ef ég má lána það Silju 🙂
  Ætla ekki einu sinni að segja hvað gerðist síðast þegar ég reyndi að sauma eitthvað saman.

 6. Gunnar Örn skrifar:

  Ég ætla að sauma gluggatjöld næstu helgi. Get vel bætt skyrtuna í leiðinni.

 7. Sauma gluggatjöld já, það var og! Þú ert kannski voða prúður og sætur svona dagsdaglega en við mamma þín vitum vel hvað þú gerir um helgar.

Lokað er á athugasemdir.