Þolmyndarflótti

Setning: Það var hringt í mig.
Svar: Ég myndi frekar segja t.d. ég fékk símtal.

Viðbót
Af hverju myndi nemandi á framhaldsskólastigi svara svona í könnun?

Fyrir sjö árum rannsakaði Sigríður Sigurjóns málnotkun gagnfræðaskólanema um allt land í leit að nokkru sem kallað hefur verið nýja þolmyndin (dæmi: það var bara hrint mér á leiðinni í skólann). Niðurstöðurnar birtust í Íslensku máli og almennri málfræði 2002 og svo virðist vera sem ýmsum hafi runnið kalt vatn milli skinns og hörunds því markvisst var tekið til við að útrýma þessari málvenju. Það árið voru krakkar fæddir 1988 að byrja í áttunda bekk.

Kannanir okkar sem að spurningalistanum stöndum taka ekki til nýju þolmyndarinnar þótt þar sé spurt um hana. Þar má finna setningar eins og það var lamið e-n, það var hrint e-m o.s.frv., þar sem notað er óákveðna frumlagið það svo þolandi verði í andlagssæti. Þolmyndin er „ný“ af því einfaldari setningar á borð við ég var laminn eða mér var hrint, eins og hefð er fyrir að segja, standa einnig í þolmynd. Setningin það var hringt í mig telst hins vegar ekki til nýrrar þolmyndar, þess vegna slæddist hún með á spurningalistann, bara í gamni. Það er ekki hægt að segja ég var hringdur í merkingunni það var hringt í mig.

Krakkar fæddir 1988 eru á síðasta ári í framhaldsskóla núna. Ég er með 189 útfyllt svarblöð frá krökkum fæddum 1992 til 1988. Og ég þori varla að kíkja eftir þessu.

9 thoughts on “Þolmyndarflótti”

  1. Ef þú lemur vitleysuna nógu mikið úr fólki, þá endarðu á að lemja allan fjandann burt með henni.
    En það var semsé hvorki lamið þennan menntskæling né hringt í hann, og mér finnst nú algert lágmark að hringja í hann.

  2. En hvað ef hann fékk ekki símtal, heldur var hringt í hann? Hvað ef hann upplifir sig bókstaflega sem þolanda í málinu? Símtalinu var kannski þröngvað upp á hann? Helvítis farsíminn alltaf með í ferð, og erfitt að svara ekki þegar fólk hringir.

  3. Það hvarflar skyndilega að mér að færsluna megi skilja á þann veg að hún lýsi mínu áliti. Svo er ekki. Þetta er athugasemd við setningu sem viðkomandi dæmdi ótæka í könnun sem ég lagði fyrir menntaskólanema.

  4. Já, ég er gráti næst, Arngrímur minn. Með tárin í augunum og kökk í hálsinum. Veit ekki hvað ég á að segja.

Lokað er á athugasemdir.