Gjafir

Ég fékk ansi hugvitssamlegar gjafir frá vinum og vandamönnum í kvöld, nema ég sé bara einfaldari en ég gef mig út fyrir að vera, þó líkast til sé það hvort tveggja. Venju samkvæmt geri ég úttekt, með þökkum til allra.

ÞÞ í fátæktarlandi eftir Pétur Gunnarsson: Fyrir mann sem eitt sinn í gamni sínu miðaði tímatal sitt við fæðingarár Þórbergs – þótt ekki föttuðu það allir – og talaði auk þess í sama tilgangi nær eingöngu í tilvitnunum í hann, var það augljós kostur. Því þótt ég hafi upp á síðkastið afneitað honum tilbið ég enn í laumi. Það er gott að geta tilbeðið, og Alli hefur fært mér nýtt skurðgoð á altarið.

Sæng og koddi: Fyrir manninn sem samdi lagið, og hefur jafnan flutt það við miklar vinsældir á jafn marga vegu og flutningarnir eru margir, er ekki annað viðeigandi en hann hljóti sæng og kodda einhvern tíma á lífsleiðinni – og sængurver í ofanálag! – eftir að hafa sofið síðastliðin ár undir tusku. Það vita það heldur ekki margir að ég vinn nær öll dagleg verk í rúminu, hvað þá að fárra hluta njóti ég betur en liggja undir sænginni með eitthvað að maula, drekka og lesa. En það vissi pabbi. Ég fer aldrei framúr aftur.

Teketill:
Jólunum í hittífyrra eyddi ég að mestu leyti drekkandi te frameftir öllu, lesandi skræður mínar, yrkjandi ástarljóð. Ef ekki í rúminu, þá við skrifborðið, en helst í rúminu. Ári síðar átti ég hvorki heilan ketil lengur né löngun til rómantískra funda í snjókomu. En nú á ég ketil og kínverskt rauðrunnate, nýja sæng og nýjar skræður til að lesa í. Ég er að endurholdgast sem hedónistinn sem áður ég var, þökk sé móður.

Himnaríki og helvíti eftir Jón Kalman:
Ekki fór það heldur framhjá móður á tedrykkjutímabilinu mikla 2005 að ein skræðanna sem ég las var Sumarljós og svo kemur nóttin, hvað þá heldur að ég hef haldið bókinni að henni síðan þá án þess hún hafi enn fengist til að lesa hana. Mikið langaði mig í þessa og innsæi móður reyndist henni farsæll vegvísir (hver talar svona?).

Þjónn, það er fönix í öskubakkanum mínum! eftir Norðdahl:
Hver í minni fjölskyldu hefði getað fengið þá furðulegu hugmynd að gefa mér ljóðasafn eftir skáld sem hann hafði áreiðanlega varla heyrt af annar en bróðir minn stóri. Þvílík hugvitssemi, þvílíkur mannþekkjari og snillingur. Er ég svona augljós? Eins og opin bók? Mér liggur við að segja að því miður átti ég bókina fyrir, en eintakinu verður komið til góðra nota á skiptibókamarkaði – aldrei á maður nóg af ljóðabókum, og talandi um:

Borg í þoku eftir Hermann Stefánsson:
Margir eru þeir snillingar sem lesa þessa síðu, og þónokkuð margir virðast hafa lesið yfir ljóðabókaóskalistann minn og örlætið virðist skína af hverju andliti. Ég varð því hreint ekki leiður að finna þessa í einum pakkanum, sem auk þess prýddi fallegt jólakort með mynd af litlum snáða sem heitir Frosti. Það gefur til kynna að ekki einungis geri Silja Rós og Halldór sér grein fyrir áhuga mínum á ljóðum, heldur hafi þau einnig komist að mínu myrkasta og best falda leyndarmáli: Ég fíla börn, allt frá frumstigi til gelgju.

Ljósár, árbók íslenskra áhugaljósmyndara 2007:
Ég er mikill aðdáandi ljósmyndara, og raunar hvers konar myndlistarmanna, bæði leikra sem lærðra. Og enda þótt það hafi ekki komið mér neitt sérlega á óvart það sem leyndist í öðrum tveggja (!) pakka frá einum slíkum (og að hluta til konu hans og barni, eins og stóð á kortinu), var það ekki síður kærkomin gjöf en aðrar. Ekki veit ég hvernig þau komust að þessari duldu aðdáun minni, en það skulu menn fá að vita að verður rannsakað ofan í kjölinn, og viðeigandi aðilar sóttir til saka. Ef ég get þá nokkru sinni slitið mig frá flottustu myndunum. En það er viðeigandi að viðeigandi aðilar skuli vera Alli, Sigrún og flottasti stráksinn í geiminum á eftir Frosta og öfugt, hann Matti litli.

Jakkaföt og bindi:
Þetta valdi ég sjálfur, en áður en ég sagði henni ömmu minni kæru hvað ég hafði valið spurði hún mig hvort þau væru ekki fín, fötin. Ég er augljósari en ég hélt. Amma komst ekki í bæinn sökum krankleika, en frændfólk var svo huggulegt að færa jólin til hennar. Hún fær bestu þakkir sem aðrir.

Jólaboð:
Það er stærsta gjöfin og sér óhlífnasta. Þórði bróður mínum og Ástu mágkonu, sem veittu jafnvel í gæðum, magni og kærleika, færi ég þakkir sem ekki verða einfaldlega orðaðar af soddan klunna.

Að þessu öllu undanskildu fékk ég nokkra aura, auk einnar gjafar sem gleymdist á dularfullan hátt heima hjá móður, og guð hjálpi mér hafi ég gleymt nokkru. Fjandinn að maður eigi nokkuð af þessu skilið, en gott er að eiga góða að.

2 thoughts on “Gjafir”

Skildu eftir svar við Silja Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *