Góður dagur

Þegar ég vaknaði á slaginu sjö í morgun ætlaði ég varla að trúa því, fyrr en ég leit út um gluggann. Veðrið virtist ekkert of slæmt, og fyrir utan að ég vildi ekki spilla þessum einstaka áfangasigri þurfti ég eftir sem áður að flytja fyrirlestur í skólanum uppúr klukkan átta. Undir eins og ég komst undir bert loft versnaði veðrið, og þegar verst lét var skyggni kannski um tíu metrar á Reykjavíkurveginum.

Þar lenti ég nærri því í árekstri við Garðabæjarafleggjara hinn meiri, þegar ökumaðurinn á undan ákvað að ná ekki gula ljósinu og snögghemlaði með þeim afleiðingum að ég þurfti að gera slíkt hið sama. Sá hringsnerist nú samt yfir gatnamótin en sumardekkjamegin voru góð ráð dýr. Með einhverjum ráðum tókst mér þó að beina Öldunni minni upp frárein inn í Garðabæ og taka u-beygju aftur inn á Reykjavíkurveg áður en umferðin fyllti æðarnar og endaði beint fyrir aftan bremsumann sem hafði á undraverðum tíma náð að rétta af sinn bíl. Það vakti athygli mína að lögreglan, sem venjulega vaktar þessa leið á hverjum morgni, var fjarri góðu gamni að þessu sinni.

Þegar á háskólasvæðið kom dreif elskan mín ekki upp á plan og sá ég því þann kost einan að snúa við – þar til ég sá slóða eftir bobcat sem lá þvert yfir grasið Norrænahússmegin milli stólpa annars bílastæðis og þá leið fór ég á Aldamótadísunni minni eins og einhver borgarstjóri, og rétt passaði milli stólpanna. Þegar í Árnagarð kom var enginn mættur, mér til þónokkurra áhyggja, en það rættist nú úr því og einhvern veginn tókst mér að flytja mína framsögu án þess að verða að gjalti.

Þegar skóla lauk reyndist Aldan svífa svo létt yfir snjónum að ég komst klakklaust af stæði, allra minna ferða, með tvo heila tíma til stefnu áður en vinna tæki við. Því leyfði ég henni að þiðna á Kringluplani meðan ég spókaði mig spekingslega um salarkynnin, og þegar ég kom í vinnuna var ég í þvílíku sólskinsskapi að ég mokaði göngustíginn að safninu svo gamla fólkið kæmist leiðar sinnar. Nú verðlauna ég sjálfan mig fyrir frammistöðu dagsins með ísköldum bjór sem hefur fengið að lúlla sér í friði í svölu skotti Aldamótadísunnar í allan dag, og Death Proof eftir Tarantino bíður gláps.

Ég er afar einfaldur náungi, það skal játast. En mikið djöfulli er ég fokkíng sáttur.

2 thoughts on "Góður dagur"

  1. Avatar Kristín Svava skrifar:

    Sælir eru einfaldir, því þeir geta síns bjórs notiðs.

  2. Það eru Ó í þessu kommenti! Ó svo satt. Ó.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *