Salerni og samgöngur

Litla kynjafræðingnum innra með mér finnst það merkingarbært að konur og bekkir til bleyjuskipta deili jafnan salernum með hreyfihömluðum.

Raunar hefur mér lengi þótt þessi kynjaaðgreining á salernum vera blátt áfram fáránleg. Eða allt þar til einhver rökfræðisnillingurinn sagði mér að konu hefði verið nauðgað af útlendingum á salerni skemmtistaðar af því þar skorti aðgreiningu. Já, einmitt þess vegna. En nú skynja ég semsagt mikilvægi þessarar hófsömu aðskilnaðarstefnu.

~

Ég hef mikið pönkast út í nauðgun Sjálfstæðisflokks á strætókerfinu. Í gær ákvað ég ólíkt mér skynsamari Íslendingum að fara eftir tilmælum lögreglu og taka þess heldur strætó í vinnuna en færa bílinn. Að undanskilinni kortérsbið í Firði (stöðluð bið milli vagna á stofnleið, ég semsé rétt missti af þeim á undan) tók það mig hálftíma samanlagt að taka vagn 1 upp í Kringlu og vagn 14 þaðan í Skeiðarvoginn. Þetta hljómar nú eitthvað lygilega, en satt er það. Þrátt fyrir þetta er næsta ómögulegt að taka leið 14 neðan af Mýrargötu upp á Langholtsveg á laugardegi á skemmri tíma en klukkustund.

Svo vill til að ég hef saknað strætó síðan ég eignaðist Ölduna mína, og mér hrútleiðist orðið að keyra. Finnst það helvítis böl að þurfa að hjakka þennan andskota upp á hvern einasta grábölvaðan dag. Þannig að ég tók strætó aftur í morgun, í þetta sinn tók það nákvæmlega hálftíma – aftur eftir kortérsbið – að komast upp í Háskóla. Þaðan tek ég leið 14 á eftir, og að fenginni reynslu veit ég að það tekur ekki skemmri tíma. Síðan nýja kerfið var tekið upp og tvisturinn gamli myrtur er nálægt búið að skera alveg á samgöngur í Vogana. Þetta náttúrlega gengur ekki, og þar fyrir utan finnst mér fáránlegt að ekki sé hægt að komast í IKEA beint frá Hlemmi. Til þess þarf að taka ásinn hinar skringilegustu krókaleiðir niður í Fjörð og annan vagn þaðan aftur í Garðabæinn.

Ef „nýja“ meirihlutanum þóknast það gustukaverk að bæta úr almenningssamgöngum borgarinnar er ég enn með nokkrar tillögur til viðbótar:

1. Allir vagnar utan stofnleiða gangi aftur á 20 mínútna fresti, morguns sem kvölds.
2. Stofnleiðir gangi til tvö að nóttu á virkum dögum, á klukkutíma fresti eftir miðnætti. Aðrar leiðir til eitt eftir sömu reglu.
3. Vagnar gangi sunnudagsmorgna sem aðra.
4. Sjálfstæðisflokkurinn hætti að djöflast endalaust í helvítis leiðakortunum og færi inn tímaáætlanir fyrir alla áfangastaði.
5. Leiðabókin verði ókeypis.

5 thoughts on “Salerni og samgöngur”

  1. Hvað er að því eigilega. Þú vart sjálfur í bleiu þegar þú varst lítil.Ertu á móti fólki sem er hreyfihamlað ? það er ekkert að því fólki.Það er ömurlegt að gera svoleðis .Já mér finnst að það ætti að vera ókeypis vegahandbók. Er þetta grín eða hvað mér finnst ekkert fyndið við þetta.

  2. Æ, ekki misskilja, mér dytti ekki í hug að gera grín að þér og það er ekkert að því að vera hreyfihamlaður. Spurningin er þessi: Af hverju fá karlar sérklósett en ekki konur og ekki hreyfihamlaðir? Og af hverju eru bara skiptiborð á kvennaklósettinu? Það er það sem mér fannst áhugavert.

  3. Þeir 4-5 vagnar sem fara frá Lækjartorgi niður á Hlemm fara líka allir, óháð degi eða tíma dags, á sömu mínútunni. Sem er oft á hálftíma fresti. Drasl!

  4. Ég má kannski benda þér á heimasíðuna straeto.is, Arngrímur. Þá geturðu að minnsta kosti verið kominn niður í Fjörð á réttum tíma og ekki þurft að bíða í korter.

Skildu eftir svar við Auðun besti vinur þinn Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *