Telygaflensubók

Mér hefur loksins tekist að brugga mér marokkóte svo líkist frummyndinni. Í litla teketilinn frá mömmu set ég um fjórar alltof fullar teskeiðar af strásykri, svo set ég álíka jafnt magn af tei í síuna. Sykurinn bráðnar nær samstundis í vatnið áður en yfirborðið nær upp að síunni. Tvöfalt mall, svona í einhverjum skilningi, eins og þeir gera þar syðra þó með ólíkum áhöldum sé.

Annars er útlit fyrir að kommentakerfið loki á næstunni, eins og ég jafnan geri þegar ég er farinn að blogga fyrir viðbrögð og ekki fyrir sjálfan mig. Auk þess hefur nokkuð borið á þeim misskilningi að það sem standi á þessari síðu sé satt, eða að það standi í einhverjum skilningi fyrir mig. Það er ekki rétt nema að takmörkuðu leyti. Ég skrifa vissulega hérna, en leiðin frá skrifara til viðtakenda er alltof löng til að hægt sé að halda öðru fram en að þessi síða gefi aðeins bjagaða mynd af mér, og að sannleikurinn brenglist á leiðinni, og þá á ég ekki endilega við það sem er hrein og klár lygi frá hendi höfundar til að byrja með (þú last rétt). Þá er ekki endilega víst að hlutirnir séu orðaðir nógu nákvæmlega til að þeir skiljist eins og þeim var ætlað.

Að því sögðu lýsi ég yfir að hvítu kornin berjast nú við einhvern flensudjöful, og er von mín að þau sigri. Sú ákvörðun mín að hætta að gefa þeim eins mikið að drekka ætti að veita þeim meiri styrk til þess arna en ella. Og til vitnisburðar um hversu seinn ég ávallt er á ferðinni, þá er bókin Níu þjófalyklar ansi hreint vel heppnuð og fær meðmæli síðuhaldara (munið lygina, og trúið aðeins því sem treystandi er á).

5 thoughts on "Telygaflensubók"

 1. Gummi skrifar:

  Úff, djöfull var ég lengi að lesa úr þessari fyrirsögn. Annars bara góðan bata.

 2. Ásgeir H skrifar:

  Vitleysa er þetta, þessi síða ert þú sjálfur og ekkert annað. Þessi Arngrímur sem ég hitti stundum á Næsta bar er hins vegar eitthvað konseptlistaverk sem internetið bjó til.

 3. Eiríkur Örn skrifar:

  Bloggmælandi heldur því sem sagt fram að hann sé ekki bloggmælandi, og það sem komi fram á blogginu sé ekki lýsandi fyrir bloggmælanda? Á meðan plús X lýgur með höndunum og Arngrímur hangir á Næsta bar.
  Oder?

 4. baun skrifar:

  teflygsubók.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.