Af fiðurfénaði

Ég er orðinn þreyttur á að útskýra fyrir fólki að ég borði ekki kjúkling. Það má allt eins útskýra fyrir mér hvers vegna ég eigi að borða kjúkling. Í langflestum tilfellum finnst mér hann viðbjóðslegur á bragðið, en ég er ekki endilega viss um að það sé fuglinum að kenna. Alvarlegri hlutir geta þó farið úrskeiðis en smekkur kokksins því alltof oft hef ég skorið í kjúkling svo honum blæddi. Ég einfaldlega neita að deyja fyrir ómerkilegri mat en lambalundir.

Samt fór ég í Suðurver eftir vinnu og keypti mér niðurbútaðan fiðurfénað í pappaöskju, franskar og brúna sósu. Sósan þeirra er nefnilega svo göldrótt að slepjulegt kjötið verður hreinasta lostæti þegar búið er að löðra henni yfir. Auk þess fást bestu franskarnar þarna. Og þau kunna að elda kjúkling án þess það blæði úr honum.

Þar hafið þið það. Héðan af þegar mér er boðið í kjúkling geri ég ráð fyrir að hann sé keyptur í Suðurveri. Annars er best að bjóða mér bara alls ekkert í kjúkling. Sú leið er vörðuð fæstum mannslífum.

2 thoughts on “Af fiðurfénaði”

  1. Vá,ég elda kjúkling svona 2-3 sinnum í viku og hef ALDREI séð honum blæða.Hvernig er fólk að elda þetta eiginlega?

Skildu eftir svar við Silja Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *