Hið daglega amstur

Ég lét merkja við mig í símaskránni á dögunum eftir að VÍS hringdi í mig með þær upplýsingar að þeir hefðu njósnað um hvar húsfélagið mitt væri tryggt. Til hvers það þarf að tryggja sundurlausan hóp fólks sem á það eitt sameiginlegt að búa í sama húsi veit ég ekki. Í gær hringdi svo Síminn í mig en ég lét það hjá fara að tilkynna þeim um merkinguna, sagði aðeins að ég vildi ekki láta trufla mig.

Í dag er ég svo staddur hjá Vodafone að greiða símreikning. Í því hringir Síminn. Ég lét manneskjuna vita af því að það væri nú merkt við mig í símaskránni og fékk það tilbaka að þau fengju númerin ekki úr símaskránni. Ha? Hafa þessi viðrini yfirleitt kynnt sér lagarammann sem þau starfa innan? Undir 14. grein laga um húsgöngu- og fjarsölusamninga segir meðal annars:

Seljendum vöru og þjónustu sem lög þessi taka til ber, áður en bein markaðssókn er skipulögð, að kanna [bannskrá Þjóðskrár]1) yfir þá sem vilja ekki að nöfn þeirra séu notuð við markaðssetningu, sbr. ákvæði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Hafi neytandi óskað eftir því að vera færður í skrána er bein markaðssókn til hans óheimil.

SAMANBER ÁKVÆÐI LAGA UM PERSÓNUVERND OG MEÐFERÐ PERSÓNUUPPLÝSINGA! Símaskráin kemur þessu fjandans ekkert við, ég er líka merktur í Þjóðskrá og þeim bar skylda til að kanna það.

Nú, eftir ritgerðarskil í Árnagarð hnaut ég um það á heimleiðinni að Vodafonehöllin að Hlíðarenda er merkt „Vodafone Höllin“ og lét það fara í taugarnar á mér. En svo komst ég að því að Íslendingum er líklega vorkunn að þurfa í sífellu að taka sundur samsett orð í huganum, fálmandi í örvæntingarfullri tilraun til að skilja merkingu þeirra, æ ofan í æ ofan í æ. Slíkt er venjulegu fólki hreinlega ekki bjóðandi, enda er Vodafone og hefur verið verndari smælingjans allt frá stofnun þess í frönsku byltingunni þegar Luc d’Voudefoune gerði manifestó byltingarmanna skiljanlegt handa alþýðu. Svo hljóðar hið heilaga fokkíng orð.

5 thoughts on “Hið daglega amstur”

  1. Þarftu ekki að láta skrá þig í bannskrá Þjóðskrár? Eða ertu búinn að því? Það er ekki nóg að láta merkja við sig í símaskránni.
    Ég er bannmerkt á báðum stöðum og það hefur dugað mér vel í 15 ár.

  2. Mundu þó að Luc d’Voudefoune lét myrða Franc Simincroix, þegar sá síðarnefndi var með svampinn í kofinu á sér. En Luc fékk blessunarlega kalt stálið á hálsinn, og Lévi Sko-Strauss tók við völdum.
    Lengi lifi sannleikurinn og símtólið.

  3. Æ, ég er kannski bara svona einfaldur. Ég gerði ráð fyrir að fyrst Hagstofan svaraði aldrei erindi mínu að þau hefðu bara skellt þessu inn umyrðalaust.
    Þannig að ég hef nú ítrekað erindi mitt.
    Emil: Þú gleymir Ludemil Jau d’Is, franska fílólógnum og menningarfrömuðinum, sem fann upp bannmerkið í símaskránni.

  4. Hvers vegna er það annars að ég þarf að hafa fyrir því að sækja um til hinna og þessara stofnana til að friðhelgi einkalífs sé virt við mig? Ef við gerum ráð fyrir að síminn minn heyri undir heimili mitt ættu stórfyrirtæki að gjöra svo vel að láta mig í friði. Hvernig stendur á því að eina leiðin til að fá að vera í friði fyrir fábjánum og óvelkomna draslinu þeirra er að rífa póstkassann burt og kasta símanum út á hafsauga?
    Væri ekki nær að fólk léti setja sig á lista yfir þá sem VILJA fá holskeflu af rúnki annarra yfir sig? Hver er réttlætingin í því að feitir milljónamæringar sendi undirsáta sína heim til mín trekk í trekk til að selja mér golfsettið sitt? Er þetta ekki allt á sömu bókina lært?
    Á ég þá að fá mér skilti sem stendur á: „Nei takk, ég er þegar í viðskiptum um golfsett við annan milljónamæring!“ eða „Golfsett afþökkuð en brauðristir velkomnar“? Kemur svo milljónamæringurinn samt og treður golfsettinu í póstkassann hjá mér eins og pósturinn, af því honum er uppálagt frá sínum yfirboðurum að hann skuli snúa tómhentur tilbaka? Er þetta ekki nákvæmlega jafn fáránlegt?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *