Leiðinlegt blogg

Nú hef ég unnið nær sleitulaust síðan á hádegi í gær og loks sér nokkuð högg á verkefninu sem fyrir lá, að fjalla um höfðingjavald í Sturlu sögu. Vona þá að mér hafi tekist að gera það með sannfærandi hætti. Morgundagurinn fer að mestu í að þétta verkið og hnýta lausa enda áður en klukkan slær tíu að kvöldi og járnhlið Árnagarðs lokast að eilífu við hrafnagarg heljar. Það er raunhæfa verkefni morgundagsins, svo ég tali eins og HR-stúdent.

Lesendum til yndisauka birti ég hér uppáhaldsklausu mína úr Sturlu sögu. Mér er í alvöru spurn hvers vegna fólk eyðir tíma sínum í endursýningar á Beverly Hills 90210 eða OC þegar það getur setið heima og lesið miðaldabókmenntir:

Þórhallur hét bóndi. Hann var Svartsson. Hann bjó að Hólmlátri á Skógarströnd. Hann átti Æsu Þorkelsdóttur. Hann var auðmaður mikill og sterkur og ódæll. Hann var þingmaður Þorleifs beiskalda og gjafvin. Þau áttu þrjár dætur, hétu Þórdís, Þórný og Helga.
Þórnýjar fékk Þorsteinn drettingur. Hann hafði þá góðan fjárhlut og réðst hann til Hólmláturs með fé sitt. Þá kom það upp að Þórný hafði verið ólétt gefin og átti sá maður barn við henni er Þórður hét og var allskillítill. Þorsteinn drettingur átti og barn í vonum og var því leynt. Guðrún Ásbjarnardóttir sagði og þá að Þorsteinn var faðir að barni hennar því er þá var nokkurra vetra gamalt. En er það kom upp allt saman þá lét Þórhallur kenna mannamunar og dró fé Þorsteins allt undir sig en hann var sjálfur lagður í vinnu. En ef hann lagði til þá var hann hraktur í orðum eða barður. Ekki var Þorsteinn vinsæll maður.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *